Erlent

Danir styðja Bandaríkjamenn

Forsætisráðherra Danmerkur segir að Danir standi þétt við bakið á Bandaríkjamönnum í Íraksstríðinu, þrátt fyrir neikvæðar skýrslur og harða gagnrýni á gang mála. Hann tekur undir áhyggjur danskra fjölmiðla sem óttast hefndaraðgerðir vegna fregna af pyntingum danskra hermanna á írökskum föngum.  Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sem staddur er hér á landi ásamt forsætisráðherrum annarra ríkja Norðurlanda, segir að neikvæðar skýrslur og fregnir af ástandi mála í Írak hafi ekki breytt afstöðu dönsku ríkisstjórnarinnar til afdráttarlauss stuðnings við stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak. Hann telur þvert á móti nauðsynlegra nú en nokkru sinni fyrr að Danir séu þar í landi og hjálpi hinni nýju íröksku ríkisstjórn við að koma á jafnvægi og lýðræði í Írak. Þess vegna hafi Danir ákveðið að vera þar áfram og hafi til bráðabirgða ákveðið að lengja dvölina um heilt ár. Fregnir hafa borist af því síðustu daga að danskir hermenn hafi tekið þátt í því að að pynta írakska stríðsfanga. Í dönskum fjölmiðlum hefur komið fram að þetta kunni að leiða til refsiaðgerða Íraka gegn dönskum hermönnum eða Dönum sem starfa í Írak. Rasmussen segir þetta auðvitað alltaf áhættu en að þau mannrán sem umheimurinn hafi orðið vitni að í landinu bitni bæði á bandalagsþjóðunum og þeim þjóðum sem standi utan við bandalagið. Hættan sé því ávallt til staðar og hún undirstriki þörfina á að alþjóðasamfélagið standi saman við að berjast gegn hryðjuverkum og að því að hjálpa írökskum stjórnvöldum að byggja upp öruggara og lýðræðislegra Írak.  Rasmussen kveðst ekki sjá neinn annan kost í stöðunni. Ef við verðum hrædd við hryðjuverkamennina þá jafnist það á við að þeir hafi sigrað.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×