Sport

Mikil pressa á Skjá einum

"Við erum undir mikilli pressu að bæta dreifikerfið þessa stundina. Þetta snýst að miklu leiti um enska boltann enda er það ástríðumál fyrir marga," segir Magnús Ragnarsson forstjóri Skjás eins. Sjónvarpsfélagið leitar nú allra leiða til að stækka útsendingarsvæðið en Magnús segir tilkostnaðinn verða að vera sem minnstan. "Reyndin er sú að innan tíðar munu hefjast útsendingar á stafrænu sjónvarpi á Íslandi og fjárfesting í sendum og öðrum búnaði er mjög óhagkvæm." Það eru ekki aðeins einstaklingar sem hafa sett sig í samband við Skjá einn því bæjarstjórar og sveitastjórnarfólk er einnig farið að hafa áhyggjur af málinu. "Þetta er byggðastefnumál en við verðum að meta þetta á viðskiptalegum forsendum á hverjum stað fyrir sig. Í dag erum við sérstaklega að líta til þeirra bæjarfélaga sem eru með kapalkerfi og ætlum að reyna að koma merkinu þannig til þeirra," segir Magnús. Enski boltinn fer í loftið 15. ágúst og það er því ekki langur tími til stefnu, "Við höfum engum lagalegum skyldum að gegna varðandi dreifinguna en auðvitað stefnum við á að ná til sem flestra staða á landinu fyrir þann tíma."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×