Innlent

Telja takmarkanir ólýðræðislegar

Það er ólýðræðislegt, ólöglegt og ósiðlegt að setja takmarkanir af nokkru tagi um þjóðaratkvæðagreiðslu," sagði Jónatan Þórmundsson, talsmaður Þjóðarhreyfingarinnar, viðbragðshóp sérfræðinga, sem kynnti skýrslu um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir blaðamönnum í gær. Að skýrslunni unnu, auk Jónatans, Margrét Heinreksdóttir, Kristrún Heimisdóttir, Ólafur Hannibalsson, Þorvaldur Gylfason og Örn Bárður Jónsson. "Þó svo að sumar takmarkanir sýnist saklausar á yfirborðinu koma þær í veg fyrir að kjósendur séu allir jafnir," sagði Jónatan. Í stjórnarskrá séu engin takmörk á kosningarétti önnur en aldur, ríkisborgararéttur og lögheimili. og því sé hæpið að rýmka megi eða þrengja þessi kosningaskilyrð við aðrar þjóðaratkvæðagreiðslur samkvæmt stjórnarskránni. "Meginreglan er skýr samkvæmt íslenskri löggjöf og lýðræðishefð, sem og samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum: Víðtækur kosningaréttur og óheft kosningatækifæri allrar þjóðarinnar í leynilegri atkvæðagreiðslu, jafnt í almennum kosninigum sem lögbundnum þjóðaratkvæðagreiðslum, og án ósanngjarnra og ómálefnalegra skilyrða eða takmarkana," segir í skýrslunni. Jónatan benti á að í skýrslu starfshóps ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu hafi ekki verið minnst á atkvæðagreiðslu utan kjörstaðar. Hann sagði það brot á mannréttindum, sem og borgaralegum og stjórnmálalegum réttindum þeirra kjósenda sem ekki væri gert kleift að kjósa vegna fjarveru á kjördag. Vakin var athygli á því að í hefðbundnum kosningum greiddu að jafnaði 10 prósent atkvæði utan kjörstaðar í kosningum sem fram færu að vetri til en 15-20 prósent að sumri til. Margrét Heinreksdóttir vakti athygli á því að komandi þjóðaratkvæðagreiðsla væri jafnframt prófsteinn á vilja þjóðarinnar varðandi 26. grein stjórnarskrárinnar sem kveður á um málskotsrétt forseta. Ef þáttaka í þjóðaratkvæðagreiðslu verði lítil megi túlka það sem svo að vilji þjóðarinnar stæði til að afnema málskotsréttinn og taka ætti mið af því við endurskoðun stjórnarskrárinnar. "Þetta er úrslitaatriði um framtíðina og hvernig stjórnskipun okkar eigi að vera," sagði Margrét.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×