Viðskipti innlent

Útgjöld heimilanna aukast um 50%

Útgjöld heimilanna í landinu hafa aukist um meira en 50% frá árinu 1995 en vísitala neysluverðs hefur aðeins hækkað um 28%. Símakostnaður Íslendinga hefur þrefaldast á þessu tímabili. Það kann að virðast undarlegt að útgjöld heimilanna í landinu aukist svo miklu meira en vísitala neysluverðs en skýringin er einföld. Árið 1995 var að ljúka miklu samdráttarskeiði í hagkerfinu en síðan hefur orðið gríðarleg kaupmáttaraukning þannig að fólk hefur einfaldlega varið meiri fjármunum í neyslu af ýmsu tagi. Þannig má segja að lifnaðarhættir hafi breyst á ýmsum sviðum en samsetning á vísitölu neysluverðs er þó ekki breytt. Útgjöld meðalheimilis á tímabilinu 2000-2002 voru samtals 3,5 milljarður króna á ári, eða nær 300 þúsund á mánuði, en voru 2,3 milljarðar árið 1995. Heimilin eyða 558 þúsund krónum á ári í mat og drykkjarvörur, samanborið við 400 þúsund árið 1995, en hlutfall í heildarneyslunni hefur þó lækkað úr 17,4% í tæp 16%. Hlutur áfengis og tóbaks hefur hins vegar hækkað. Stærsti útgjaldaliðurinn er húsnæði, hiti og rafmagn, um 700 þúsund á ári, eða 20% Lang mesta breytingin hefur þó orðið á póst- og símakostnaði og má fullyrða að póstúgjöld hafi lítið þar að segja, heldur sé það blessaður gemsinn sem taki sinn toll - enda var hann varla til árið 1995. Hvert heimili eyðir nú yfir 100 þúsund krónum í síma samanborið við aðeins 30 þúsund fyrir níu árum. Inni í þessum útgjöldum heimilanna er þó ýmsu sleppt, s.s. vöxtum og ýmsum afborgunum. Í þessu samengi má hafa í huga að launavísitala hefur hækkað um 63% á þessu tímabili




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×