Innlent

Engar undanþágur vegna fiskimiða

Íslendingar munu ekki fá undanþágu vegna fiskveiðiauðlinda sinna, komi til þess að þeir gangi í Evrópusambandið. Þetta hefur Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður eftir æðsta manni sjávarútvegsmála hjá sambandinu.   Í nýrri stjórnarskrá Evrópusambandsins er kveðið á um að fiskveiðiauðlindir séu sameiginlegar auðlindir sambandsins. Engar útskýringar er þó að finna um það hvernig staðið verður að því að úthluta veiðiréttindum. Hvort byggt verði á veiðihefðum eða hvort stjórn sjávarútvegsmála verði alfarið miðstýrt frá Brussel. Fyrir þjóðir eins og Íslendinga og Norðmenn skiptir þetta höfuðmáli þegar horft er til framtíðar og inngöngu í ESB er velt fyrir sér.   Sigurður Kári Kristjánsson er staddur á fundi þingmannanefndar EFTA í Sviss, og þar er einnig Frans Fischler, æðsti maður sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu. Sigurður Kári segist hafa spurt Fischler, í ljósi fyrri yfirlýsingar hans í vitðtali við Morgunblaðið, hvort Íslendingar ættu möguleika á að fá varanlega undanþágu frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB. Svör Fischlers voru skýr að sögn Sigurðar Kára: Um slíkar undanþágur væri ekki að ræða. Þingmaðurinn segist telja að þetta svar Fischlers taki af allan vafa um að fiskveiðimálum verði miðstýrt frá Brussel í framtíðinni.    


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×