Viðskipti innlent

„Gróðurhúsaáhrif“ á bensínverð

Stjórnvöld ætla ekki að lækka nein gjöld eða skatttekjur af bensíni og olíu, til að milda neikvæð áhrif af miklum hækkunum á heimsmarkaði á íslenskt efnahagslíf, og réttlæta það með baráttu sinni gegn gróðurhúsaáhrifum. Þetta kemur fram í greinargerð á heimasíðu fjármálaráðuneytisins þar sem fjallað er um þjóðarbúskapinn. Þar kemur m.a. fram að ef hækkunin á milli ára verði 10% eða meiri, sem allt stefnir í, muni draga úr hagvexti, verðbólga aukast og kaupmáttur tímakaups minnka, svo nokkrar stærðir séu nefndar. Síðan segir orðrétt: „Þó svo að nýlegar verðhækkanir gangi að einhverju leyti til baka má reikna með því að raunverðið muni hækka til lengri tíma litið. Því er ekki réttlætanlegt að grípa til aðgerða til að deyfa raunverulegar verðbreytingar enda kynni það að reynast skammgóður vermir. Þá má ekki gleyma því að verulegur hluti af losun gróðurhúsalofttegunda kemur úr olíu. Viðleitni stjórnvalda til að draga úr henni með skattlagningu er fullkomlega réttlætanleg.“ Ennfremur segir í greinargerðinni að raunhækkun á verði olíu hafi áður orðið til þess að ýta undir aðgerðir til að auka nýtingu hennar þar sem hún er notuð, og engin ástæða sé til að ætla að komið sé að endimörkum í því. „Verðhækkanir gera mögulega nýtingu á olíulindum sem ekki eru hagkvæmar í dag, sérstaklega þar sem um þunga olíu er að ræða. Hins vegar er ólíklegt að aftur komi dagar þar sem olía verður svo ódýr að hægt að verður að fara jafn illa með hana og gert hefur verið stóran hluta af þeim tíma sem hún hefur verið notuð.“   Sem sagt: Það er einmitt núna sem rétti tíminnn er fyrir Íslendinga, að mati fjármálaráðuneytisins, að hefja fyrir alvöru baráttuna gegn gróðurhúsaáhrifum í allt of háu bensín- og olíuverði. Sjá nánar á slóðinni: http://www3.fjarmalaraduneyti.is/media/Thjodarbuskapurinn/Urtjodarbuskapnum0405.pdf




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×