Innlent

Ólafur getur vel við unað

Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, telur það ekki vera áhyggjuefni fyrir Ólaf Ragnar Grímsson þótt hlutfall auðra seðla verði hátt í forsetakosningunum á laugardaginn kemur. Mikið hefur verið rætt undanfarið um gildi auðra seðla fyrir sitjandi forseta. Í skoðanakönnun Fréttablaðsins um kosningar sem birtist í gær fær Ólafur Ragnar 72 prósent atkvæða, Baldur Ágústsson fengi um sex prósent og Ástþór rúmt prósent. Tuttugu prósent ætla að skila auðu samkvæmt könnuninni. Steingrímur telur Ólaf geta vel við unað ef þetta verða úrslitin í ljósi þeirra deilna sem uppi hafa verið um ákvörðun forsetans að nota málskotsrétt sinn. "Þeir sem skila auðu er sá hópur manna sem lítur á það sem borgaralega skyldu sína að mæta á kjörstað og kjósa, en fallast ekki á þá ákvörðun forsetans að beita málskotsréttinum. Þau koma því fyrst og fremst frá andstæðingum Ólafs og gjörða hans. Það ætti ekki að vera áhyggjuefni fyrir hann ef þetta verða úrslitin." Steingrímur bætir við að það hafi ekki verið jafn margir pólar í forsetakosningum frá því að forseti var fyrst kjörinn.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×