Lífið

Skuldir heimilanna hækka

Bensínhækkkanir hér á landi í kjölfar hryðjuverkaógna við Persaflóa hækka skuldir heimilanna um fimm til sjö þúsund krónur á hvern mann og kynda undir verðbólgunni. Hækkanirnar munu valda 0,2-0,3% hækkun neysluvísitölunnar, sem Hagstofan birtir á morgun, en það hækkar skuldir heimilanna um einn og hálfan til tvo milljarða króna. Bensínið hækkaði um sex prósent og dísilolían um átta prósent. Við neysluvísitöluna bætist svo hækkun húsnæðisverðs og nokkrir smáliðir þannig að hækkunin verður að líkindum um 0,5%. Gangi það eftir er síður en svo að slá á verðbólguna því þá mælist hún 3,6% á tólf mánaða tímabili. Það er heilu prósentustigi yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og nálgast verðbólgan nú óðum svonefnd þanmörk sem bankinn setti sér. Verði þeim náð verða þau þáttaskil að bankinn gerir skýrslu um stöðu mála til ríkisstjórnarinnar enda verður ástandið þá farið að stefna kjarasamningum í hættu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×