Íslenski boltinn

Fyrirliðarnir á leikdag: Arnór Sveinn fer í göngutúr en Pálmi Rafn ryksugar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Breiðablik og KR mætast núna klukkan 20.00 í 13. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta, en um sannkallaðan sex stiga leik í toppbaráttunni er að ræða.

Leikmenn Pepsi-deildarinnar tækla leikdaga á mismunandi hátt eins og Ríkharð Óskar Guðnason, Rikki Gjé, fékk að kynnast í dag.

Hann hitti fyrirliðana, Arnór Svein Aðalsteinsson hjá Breiðabliki og Pálma Rafn Pálmason KR, í morgun og sá hvað þeir aðhafast á leikdegi.

Arnór er meira í að ganga í crocs-skóm og drekka rauðrófusafa sem hann býr til sjálfur, en Pálmi Rafn ryksugar íbúðina sína.

„Ég hef verið að vinna með þetta í sumar. Þetta tæmir hugann og er róandi,“ segir Pálmi um húsverkin, en eiginkona hans heldur fyrirliðanum uppteknum.

„Hún er alltaf með nóg af verkefnum fyrir mig þegar hún fer í vinnuna. Ég hef aðeins verið að taka til þegar hún er ekki heima,“ segir Pálmi Rafn.

„Ég er með syni mína með mér. Annar þeirra er sérlegur áhugamaður um að ryksuga þannig ég fæ góða hjálp.“

Þetta bráðskemmtilega innslag má sjá hér að ofan.

Leikur KR og Breiðabliks er í beinni útsendingnu á Stöð 2 Sport en upphitun hefst klukkan 19.30 á Stöð 2 Sport HD. Leikurinn verður einnig í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×