Innlent

Fullt út úr dyrum hjá sýslumanni: „Þetta er ófremdarástand eins og er“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Fólk þurfti að bíða úti á gangi eftir afgreiðslu þegar ljósmyndara Vísis bar að garði.
Fólk þurfti að bíða úti á gangi eftir afgreiðslu þegar ljósmyndara Vísis bar að garði. Vísir/Vilhelm
Mikið annríki hefur verið hjá sýslumannsembætti höfuðborgarsvæðisins síðustu daga vegna útgáfu nýrra vegabréfa. Full hefur verið út úr dyrum í afgreiðslu embættisins við Dalveg í Kópavogi og hefur fólk þurft að bíða í á þriðju klukkustund eftir að fá afgreiðslu.



„Líklegasta skýringin er sú að á tímabili voru gefin út fimm ára vegabréf og núna eru þessi fimm ára vegabréf farin að renna út og það bætist út ofan á þessi venjulegu tíu ára sem eru að renna út,“ segir Hildur Edwald,  fagstjóri hjá ökuskírteina- og vegabréfadeild, aðspurð um málið.



Það var þröngt á þingi hjá sýslumanni í morgun eins og verið hefur undanfarna daga.Vísir/Sveinn Benedikt
Vísir hefur í dag rætt við fólk sem hefur leitað afgreiðslu hjá sýslumanni vegna vegabréfa í dag en þeir lýsa mikilli örtröð. Hildur segir að fólk geti búist við að þurfa að bíða í einn til tvo tíma eftir afgreiðslu. „Það eru svona einn til tvo tíma. Það hefur alveg farið yfir tvo tíma. Þetta er svona bara frá níu til þrjú,” segir hún.



En hvernig er hægt að laga þessa stöðu? „Við þurfum að fá stærra húsnæði og það er í vinnslu eftir sameiningu embættanna og við þurfum að fá fleira starfsfólk. Það er eitthvað komið á skrið að leysa það. Svo þurfum við að fá betra tölvukerfi,” segir hún og bætir við að tölvukerfið sé gamalt og hægi á afgreiðslunni.



„Þetta er ófremdarástand eins og er,“ segir Hildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×