Fótbolti

Freyr: Þóra var langt á undan sinni samtíð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, lofaði feril Þóru B. Helgadóttir sem lagði landsliðshanskana á hilluna í gær eftir sextán ára feril með landsliðinu.

Þóra skoraði meira að segja eitt mark í 9-1 sigri Íslands á Serbíu á Laugardalsvellinum.

„Hún er frábær íþróttamaður, fyrst og fremst. Mér finnst hún stórkostleg,“ sagði Freyr í samtali við Vísi eftir leikinn í gær.

„Ég hef verið að skoða klippur af henni frá 1999 og þar er hún að gera hluti sem ný kynslóð markverða, eins og Rúnar Alex [Rúnarsson] og fleiri, gerir vel. Eins og að vera tæknilega góð í fótunum. Þóra hefur verið þannig frá 1999 og var því langt á undan sinni samtíð.“

Vísir/Stefán
Hann segir að Þóra hafi reynst frábær liðsfélagi samherja sinna en að hann hafi einnig leitast við að fá álit hennar á ýmsum málum.

„Hún er eldklár og hefur mjög sterkar skoðanir. Ég ákvað að nýta mér það og gekk á hana með ýmislegt. Við skiptumst á skoðunum og það vil ég fá frá leikmönnum.“

„Ég vona að fjölmiðlar og íþróttaheimurinn átti sig á því hversu frábær íþróttamaður hún er, hafi menn ekki gert það nú þegar. Hún hefur verið í fremstu röð síðan 1998 og það eitt og sér er frábært afrek.“

„Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna með henni. Það hefur verið frábært.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×