Lífið

Framkvæmdastýra UN Women verður viðstödd spjallfund í Hörpu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women.
Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women. vísir
Af tilefni 100 ára kosningaafmælis kvenna er framkvæmdastýra UN Women, Phumzile Mlambo-Ngcuka, væntanleg til landsins í opinbera heimsókn.

Föstudaginn 23. október efnir því utanríkisráðuneytið í samstarfi við UN Women á Íslandi til spjallfundar í Hörpu. Fulltrúi landsnefndar UN Women opnar viðburðinn, þar sem hlýtt verður á þrjá íslenska HeForShe lýsa því hvaða þýðingu HeForShe hefur fyrir þá og hvernig þeir leggja sín lóð á vogarskálarnar í baráttunni fyrir kynjajafnrétti í daglegu lífi. Phumzile verður viðstödd og tilbúin að ræða við viðstadda um málið.

Ólafur Þ. Stephensen, framkvæmdastjóri FA, stjórnarmeðlimur landsnefndar UN Women á Íslandi og HeForShe, opnar viðburðinn, heldur stutt erindi og stýrir umræðum.

Einnig taka til máls:

Friðrik Dór Jónsson, söngvari og HeForShe

Stefán Gunnar Sigurðsson, femínisti, tómstundafræðinemi og HeForShe

Í kjölfarið mun Phumzile svara spurningum úr sal um HeForShe átakið og mikilvægi þess að karlmenn og strákar beiti sér markvisst í baráttunni fyrir kynjajafnrétti.

Í dag hafa 10.258 karlmenn og strákar hér landi gerst HeForShe á www.heforshe.is og þar með heitið því að beita sér fyrir jöfnum hlut karla og kvenna á öllum sviðum og láta í sér heyra ef þeir verða uppvísir að hvers konar óréttlæti í garð kvenna; innan heimilisins, á vinnustöðum, skólum, almannarýminu og á netinu.  Dagskráin hefst klukkan 15 í sal á efstu hæð í Hörpu. Viðburðurinn fer fram á ensku og aðgangur er ókeypis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×