Lífið

Frægir taka sprettinn í Kringlunni

Þau Ívar Kristinn Jasonarson, Dórthea Jóhannesdóttir og Einar Daði Lárusson ætla að spretta úr spori í Kringlunni um helgina.
Þau Ívar Kristinn Jasonarson, Dórthea Jóhannesdóttir og Einar Daði Lárusson ætla að spretta úr spori í Kringlunni um helgina. Vísir/Stefán
„Steindi Jr. ætlar að keppa við Erp í spretthlaupi,“ segir Dóróthea Jóhannesdóttir, einn af skipuleggjendum Kringluspretts, söfnunar fyrir boðhlaupssveit Frjálsíþróttasambandsins. Á sunnudag ætla þau að halda óvenjulegan viðburð í Kringlunni, en þar verða settar upp tvær sextíu metra spretthlaupsbrautir.

„Við í boðhlaupssveitinni ætlum að keppa í hlaupi, en svo höfum við fengið til liðs við okkur nokkra þekkta einstaklinga sem ætla að keppa, hver við annan og jafnvel við okkur,“ segir Dóróthea, en meðal þeirra sem ætla að etja kappi eru Vala Grand, Ívar Guðmundsson útvarpsmaður, Margrét Gnarr fitnesskeppandi, Dýri Kristjánsson íþróttaálfur og Ilmur Kristjánsdóttir leikkona.

Kynnir verður sjálfur Adolf Ingi og lofar Dóróthea mikilli gleði og stuði. „Þetta verður bara gaman. Svo er almenningi frjálst að keppa við okkur gegn vægu gjaldi og styrkja þannig þátttöku sveitarinnar í sínu fyrsta stórmóti,“ segir hún. Hlaupagleðin hefst klukkan 14 og hvetja þau sem flesta til að mæta, taka góðan sprett og styrkja gott málefni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×