Fótbolti

Frábært að fá lið frá nýrri heimsálfu á Rey Cup

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Rey Cup fer fram í fimmtánda skiptið í sumar en í sumar tekur í fyrsta skiptið lið frá Suður-Ameríku þátt í keppninni en von er á liði frá Santiago, höfuðborg Síle. Guðjón Guðmundsson ræddi við Magnús Grétarsson, formann stjórnar mótsins í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Mótið í ár fer fram 26-30. júlí en þegar hafa tíu erlend lið staðfest þátttöku sína en það eru um 90. lið sem fá þátttökurétt og taka alls 1400 knattspyrnumenn þátt í mótinu á ári hverju.

„Við höfum verið með lið frá þremur heimsálfum og það verður gaman að fá nýtt lið inn í flóruna. Markmiðið er að fá fleiri lið inn víðsvegar úr heiminum en við finnum fyrir því að lið sækjast eftir því að koma aftur og aftur. Þau eru sátt með umgjörð mótsins og fjölda leikja sem liðin leika á mótinu.“

Þegar hafa fjögur ensk lið staðfest þátttöku sína á mótinu.

„Brighton, Sunderland, Burnley og Norwich hafa öll staðfest þátttöku sína en Norwich er að koma í fjórða skiptið,“ sagði Magnús en viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×