Innlent

Fox News fjallar um nafnabaráttu Blævar

Björk Eiðsdóttir.
Björk Eiðsdóttir.
Vefsíða fréttastofunnar Fox News fjallar um baráttu ritstjóra Séð og Heyrt, Bjarkar Eiðsdóttur og dóttur hennar, en þær hafa stefnt ríkinu vegna þess að dóttir Bjarkar fær ekki að heita Blær. Ástæðan er sú að eftir árið 1973 má aðeins skíra drengi Blær, en nafnið er karlkynsorð.

Í frétt Fox News er málið reifað nokkuð nákvæmlega, en þar er að auki rætt við Ágústu Þorbergsdóttur, formann mannafnanefndar, sem segir fegurð nafna vissulega hlutlæga en til séu dæmi um nöfn sem séu ekki ásættanleg og nefnir Ágústa nafnið Satanía í þessu samhengi.

Einnig er rætt við listamanninn Curver, eða Birgi Örn Thoroddsen, sem vildi breyta nafni sínu fyrir allnokkrum árum.

Hann sagðist ávallt hafa verið vondaufur um að breytingin gæti gengið í gegn, enda seint hægt að rökstyðja að nafnið Curver fylgi íslenskum nafnareglum eins og þær eru í dag. Hann segist hafa ákveðinn skilning á nefndinni, og tekur sem dæmi að það sé gott að einhver komi í veg fyrir að skíra barnið sitt eftir úrgangi hunda. Honum þykir þó sérkennilegra að fullorðið fólk geti ekki breytt nafni sínu í hvað sem þeir vilja heita.

Eftir að hafa verið hafnað af mannanafnanefnd birti listamaðurinn heilsíðu auglýsingu árið 2006 þar sem hann tilkynnti landsmönnum að hann hefði breytt nafni sínu í Curver - og bað almenning um að sýna því skilning og virðingu.

Hægt er að lesa umfjöllun Fox News hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×