Lífið

Forsíðuviðtal Lífsins: Lífið leiðir mig í rétta átt

Rikka skrifar
Edda Björg Eyjólfsdóttir
Edda Björg Eyjólfsdóttir
Edda Björg er hugmyndaríkur orkubolti en stundum svolítið utan við sig að eigin sögn. „Ætli þetta sé ekki svona nettur athyglisbrestur,“ segir Edda og hlær.

„Eða kannski er ég svona sveimhugi eða dagdraumamanneskja, en það kemur nú stundum að góðum notum, svona oftast. Stundum er ég samt bara komin í einhvern annan heim og þá þarf að hrista mig til baka en þessu verður ekki breytt,“ segir hún hlæjandi. „Nema með einhverjum meiri háttar góðum lyfjum,“ segir þessi hláturmilda leikkona sem brætt hefur hug og hjörtu margra með fallegri útgeislun sinni bæði í sjónvarpi og á sviði. Nýjasta verk okkar konu er leikritið Ofsi þar sem hún leikur stórlynda eiginkonu Eyjólfs ofsa sem leitast við að hefna dauða föður síns. Edda, sem og verkið sjálft, hefur fengið verðskuldaða athygli og frábæra dóma.

Ólst upp hjá ömmu og afa

Edda Björg er alin upp hjá móðurömmu sinni og -afa í austurbæ Kópavogs frá tveggja ára aldri.

„Mamma og pabbi voru svo ung þegar þau áttu mig. Við mamma bjuggum upphaflega hjá ömmu og afa. Eftir að við fluttum þaðan þá gerðist mamma flugfreyja og ég var alltaf meira og meira hjá ömmu og afa þar til það hentaði bara betur að ég byggi þar,“ segir Edda.

„Mér þykir óskaplega vænt um þau, ég fékk mjög ástríkt uppeldi og væri ekki manneskjan sem ég er í dag án þeirra. Mér finnst líka einstakt að hafa fengið að alast upp hjá þessari kynslóð,“ segir Edda. Hjá ömmu sinni og afa kynntist Edda leikhúsheiminum og þá varð ekki aftur snúið.

„Þau voru mjög dugleg að fara með mig í leikhús, ekki bara á barnasýningar heldur fullorðins líka. Ég man vel eftir sýningum eins og Ofvitanum og Stundarfriði sem höfðu mikil áhrif á mig og fannst mér allt sem tengdist leikhúsi mjög sjarmerandi og skemmtilegt.“ Eftir grunnskólagöngu í Kópavogsskóla fór Edda Björg í Menntaskólann við Hamrahlíð og hellti sér þá á fullu út í leiklistina.

„Þar byrjaði leiklistin hjá mér og ég var komin með nægilega mikið sjálfstraust til þess að fara í leiklistarhópinn. Þar var verið að setja upp Rocky Horror og við vinkonurnar fórum allar á leiklistarnámskeið hjá Kolbrúnu Halldórsdóttur og þá varð ekki aftur snúið. Þarna fann ég hvar mín braut lá, allt annað var lagt til hliðar.“ Eftir menntaskólann lá leið Eddu í Leiklistarskóla Íslands þar sem að hún þreytti inntökupróf en eins og margir vita eru örfáir sem komast þar inn ár hvert.

„Ég ákvað að taka þessu nokkuð alvarlega og undirbjó mig vel undir inntökuprófið, kynnti mér alls kyns leiklistartækni, raddþjálfun og sökkti mér ofan í bókmenntir, allt til þess að leggja grunninn að því að fara í þetta próf og ég þakka þessum undirbúningi það að komast inn í skólann í fyrstu tilraun. Ég hefði svo sem reynt aftur ef ég hefði ekki komist inn eða farið utan og hvet alla þá sem hafa áhuga að hætta ekki þó að þeir komist ekki inn í fyrstu heldur fylgja draumum sínum.“

Bjó til sín eigin tækifæri

Að útskrift lokinni fór Edda að vinna í Borgarleikhúsinu og vann þar í átta ár áður en hún fór í Þjóðleikhúsið þar sem hún vann í rúm fjögur ár áður en samningurinn rann út og hún þurfti að kveðja leikhúsið að sinni.

„Þetta var svolítið erfitt tímabil og ég velti því fyrir mér hvernig ég skilgreindi sjálfa mig. Var það út frá því hvar ég vann eða hver ég væri? Ég vildi það alls ekki því að maður þarf að skilgreina sig út frá því sem maður gerir,“ segir hún. Edda fór í gegnum mikla sjálfsskoðun og hreinsunareld að eigin sögn á þessum tíma en þrátt fyrir mótlæti gafst hún aldrei upp á leiklistardraumnum.

„Ég tók þá ákvörðun að gefast ekki upp, ég ætla að verða alltaf betri og betri leikkona en ég er. Ég hef ótrúlega mikinn áhuga á vinnu minni og tækni leikarans. Ég vil þróast og þroskast í þessu starfi. Mig dreymdi stóra drauma á þessum tíma og þá sparka englarnir manni af stað,“ segir Edda og bætir við að úr þessu öllu hafi hún fengið dýrmæt tækifæri til að læra af umhverfinu og treysta því að lífið sæi til þess að útkoman yrði sú besta.

„Þarna þurfti ég bara að slá í klárinn og spyrja mig að því hvort ég ætlaði bara að gefast upp eða taka þessu ástandi. Ég ákvað að gera hið síðarnefnda og sjá hvað í mér byggi.“ Í kjölfarið stofnuðu hún og Marta Nordal, vinkona hennar, leikfélagið Aldrei óstelandi og settu upp Fjalla-Eyvind í Norðurpólnum, sem svo sannarlega sló í gegn og fékk verkið sjálft og Edda Björg tilnefningu til Grímuverðlaunanna.

„Velgengni Fjalla- Eyvindar var mikil sönnun fyrir mig, að ég gæti gert þetta og gæti gert það sem ég vil gera. Það var mikilvægt fyrir mig að upplifa þetta á þessum tímapunkti þar sem lítið var fyrir mig að hafa í leiklistinni en þarna fann ég að ég gat búið til mín eigin tækifæri.“

Erfitt að missa pabba

Edda Björg átti gott samband við föður sinn og hafði jafnvel hug á því feta í hans spor og gerast arkítekt á einum tímapunkti.

„Ég vann aðeins með honum á tímabili og fann þá hvað ég hafði mikinn áhuga á því að skapa. Þetta var mjög skemmtilegur tími enda vorum við pabbi mjög lík, bæði hálf utan við okkur og sítalandi,“ segir Edda og hlær. Eyjólfur, faðir Eddu, lést eftir stutta baráttu við krabbamein í október síðastliðnum.

„Pabbi bjó úti í Ósló síðustu árin, mér fannst erfitt að geta ekki verið hjá honum á þessum tíma. Kvöldið áður en hann dó fór ég á æfingu á Ofsa. Marta sagði mér að fara út til hans og stóð það til en í raun var það ekki hægt, ég var búin að skuldbinda mig til að leika og erfitt að snúa sig út úr því. Ég náði þó að kveðja hann í gegnum síma, sem er mér mjög dýrmætt, en svona er lífið. Það er svo skrítið að mér finnst eins og hann sé nær mér eftir að hann fór en þegar hann var á lífi, það er erfitt að skýra út þá tilfinningu, mér finnst ég alltaf geta kallað á hann.“

Núna, tveimur mánuðum eftir fráfall föður síns, segist hún finna frið og kærleik og vera þakklát fyrir þann tíma sem þau áttu saman.

„Ég finn sífellt fyrir nærveru hans. Við Stefán, maðurinn minn, fórum til Kaupmannahafnar um daginn og gistum við eina eftirlætisgötu pabba þar sem antík- og hönnunarverslanir voru allt um kring. Ég hugsaði mikið til hans og hvað hann hefði haft gaman af því að vera með okkur, enda mikill fagurkeri,“ segir hún. Hálfsystkini Eddu, og börn föður hennar, búa í Kaupmannahöfn og stóð til að hitta þau í ferðinni. „Við vorum ekki búin að festa okkur tíma til að hitta þau en það stóð til. Einn daginn vorum við hjónin að skoða okkur um í Illum og Stebbi stígur út til þess að fá sér ferskt loft. Fyrsta fólkið sem hann mætir úti á götu eru systkini mín, þvílík tilviljun. Þarna sannfærðist ég um það að hann væri með okkur og væri að reyna að tengja okkur.“

Fer úr og í karakter

Framtíðin er jafn björt yfirlitum og Edda Björg sjálf og segist hún vera sátt við sína stöðu í dag.

„Ég lifi í núinu og trúi því að lífið leiði mig í rétta átt. Ég væri til í að sanka að mér frekari leikstjórnarreynslu en þau verkefni sem ég hef unnið með Aldrei óstelandi hafa gefið mér mikla útrás fyrir leikstjórann í sjálfri mér. Ég fann þegar við vorum að setja upp fyrstu sýninguna á Fjalla-Eyvindi að mér leið eins og unglingi í uppreisn. Mér fannst gaman að leika og vinna hluti upp á móti því sem ég hafði verið vön að gera eins og að leika með bakið í áhorfendur, hafa handritið inni á sviðinu. Mér finnst gaman að rannsaka hvar þessi mörk liggja og sýna áhorfendum líka hvað gerist „utan sviðs“, hvernig ég drekk kaffið mitt inni á sviðinu, laga búninginn, les handritið. Allt þetta er ég enn að skoða og ekki síst í Ofsa en þar förum við úr og í karakter á sviðinu. Eins og þegar maður fylgist með sinfóníunni flytja verk, þá fylgjast áhorfendur með okkur flytja Ofsa. Þuríður Sturludóttir er magnaður karakter, ég hef held ég aldrei kynnst annarri eins persónu. Það hjálpaði mér mikið námskeið í Grikkjunum sem Pétur Einarsson kenndi á öðru ári í Leiklistarskólanum. Ég fann fljótt að ég yrði að nálgast hana eins og persónu í grískum harmleik. Ég varð hreinlega að þaulhugsa allar hreyfingar og hvernig textinn félli. Öll aukaatriði varð ég að taka út. Mér leið svolítið eins og ég væri alltaf að taka til, en rosalega jarðtengd og bein í baki.

Allt vinnuferlið við Ofsa var svo skemmtilegt og átakalaust. Það er einstakt að koma að sköpun verks frá upphafi til enda. Geta valið að vinna með frábæru listafólki allt frá leikmynd, búningum, hljóði eða hönnun kynningarefnis. Maður kemur að þessu öllu á einn eða annan hátt. Innan hópsins ríkir mikið lýðræði og allir eru mjög sjálfstæðir í sinni vinnu og virðing borin fyrir skoðunum hvers og eins. Þannig eigum við svo mikið í sýningunni. Maður er ekki bara að vinna með sína persónu eða senu heldur kemur maður að öllu í heild sinni. Þannig var leikgerðin unnin í sameiningu og allar senur urðu til í mjög svo skapandi ferli. Mér þykir það ákaflega dýrmætt að geta unnið svona með öðrum, því það er ekki sjálfgefið. Þessi vinna hefur kennt mér gríðarlega mikið varðandi svo margt við uppsetningu á leikverki,“ segir Edda Björg og bætir við að hana langi áfram að gera leikhús sem henni þyki „töff“ og langi að sjá.

„Við djókuðum oft með það að allar hugmyndir yrðu að vera „töff“ – annars yrðu þær ekki með, en það er einmitt það sem þetta allt snýst um. Ef maður fær tækifæri til þess þá á maður auðvitað að búa til leikhús sem maður sjálfur vill fara að sjá, finnst flott og maður fílar og segja sögur sem maður brennur fyrir, það er mikilvægt,“ segir Edda og bætir við:

„Mig langar umfram allt að halda áfram að rannsaka og þenja þetta skemmtilega form sem leikhúsmiðillinn er, kanna hvernig ég get komið að því frá öðru sjónarhorni.“ Ef farið er yfir feril Eddu Bjargar er nokkuð ljóst að okkar kona er frumkvöðull á sínu sviði sem missir aldrei sjónar á ástríðunni sem í henni býr, sama hvað bjátar á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×