Innlent

Forbes fjallar um Bæjarins beztu: Telja eftirnafn Maríu vera Pylsuvagninn

Stefán Árni Pálsson skrifar
vísir/skjáskot af síðu Forbes
Bandaríska viðskiptatímaritið Forbes segir Bæjarins Beztu vera frægasta pylsuvagn í heiminum. 

Í frétt Forbes kemur fram að pylsuvagninn hafi í raun orðið heimsfrægur þegar Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, fékk sér pylsu þar um árið. Staðurinn hefur verið staðsettur við höfnina síðan árið 1937.

Guðrún Kristmannsdóttir, eigandi staðarins, segir í viðtali við miðilinn að líklega hafi hver einasti Íslendingur bragðað á pylsunum sem þau bjóða upp á.

Ítarlega er rætt við Maríu Einarsdóttur sem hefur starfað sem pylsusali í vagninum í mörg ár. Hún tók meðal annars á móti Bill Clinton á sínum tíma.

Blaðamaður Forbes hefur aftur á móti eitthvað misskilið Maríu en hún er endurtekið titluð María Pylsuvagninn í greininni og í myndatexta. Greinilegt er að blaðamaður telur Pylsuvagninn vera eftirnafn pylsusalans þjóðþekkta.

María afgreiddi Clinton þann 31. ágúst 2004 þegar hann var á landinu á UNICEF ráðstefnu.

„Ég þekkti hann um leið og hann labbaði framhjá,“ segir María í samtali við Forbes.

„Ég kallaði til hans að hér væri bestu pylsur í heiminum. Hann gekk að mér skælbrosandi, og ég held að lífverði hans hafi ekki þótt það sniðugt, og spurði mig hvað ég hefði verið að segja. Þá endurtók ég að hér væru bestu pylsur í heiminum, hann þyrfti að bragða á þeim.“

María segir að Clinton hafi bara viljað sinnep á pylsuna sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×