Innlent

Flytur út þekkingu um öryggi barna

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Herdís Storgaard, sem er lengst til hægri, er hér á fundi með foreldrum í grunnskóla í Brasov í Rúmeníu.
Herdís Storgaard, sem er lengst til hægri, er hér á fundi með foreldrum í grunnskóla í Brasov í Rúmeníu.
Herdís Storgaard, hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður Miðstöðvar slysavarna barna, er farin að flytja út þekkingu á sviði öryggis barna. Fjöldi gesta víðsvegar að úr heiminum hefur heimsótt miðstöðina og sjálf hefur hún farið víða til að veita faglega ráðgjöf. Herdís var á dögunum að koma úr fimmtu fræðsluferð sinni til Rúmeníu.

„Sem aðildarríki að Evrópusambandinu þarf Rúmenía að uppfylla ýmsar kröfur og hefur fengið veglega styrki til þess. Sameiginlegt verkefni Íslands, Noregs og Liechtenstein styrkir lönd sem eru að taka á sínum málum með allt sem snýr að fólki og var mér boðið að kynna mitt verkefni og starf til fjölda ára. Markmiðið er að auka öryggi í öllum grunnskólum Rúmeníu,“ greinir Herdís frá.

Sameiginlegt verkefni Íslands, Noregs og Liechtenstein styrkir lönd sem eru að taka á sínum málum með allt sem snýr að fólki og var mér boðið að kynna mitt verkefni og starf til fjölda ára. Herdís Storgaard, hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður Miðstöðvar slysavarna barna
Yfirvöld í Brasov ákváðu að gera einn grunnskóla borgarinnar að fyrirmyndarskóla varðandi öryggi barna sem starfsmenn annarra grunnskóla landsins myndu læra af. „Ég þjálfaði alla kennarana þar og leiðbeinendur sem gætu haldið þjálfuninni áfram fyrir aðra skóla. Ég gerði verkferla og kenndi áhættumat og er nú að leggja lokahönd á handbók. Í henni verður sérstakur kafli um samskipti skóla og foreldra en þau hafa verið vandamál í Rúmeníu. Þegar heragi ríkir ekki lengur kunna menn kannski ekki alveg að fara með frjálsræðið. Starfsmenn skólanna þurfa meðal annars að ræða við foreldra um mataræði, svefn og hreyfingu barna. Ráðgert er að kennarar verði með námskeið fyrir foreldra þegar börn byrja í grunnskóla og að foreldrarnir fái skriflegar leiðbeiningar.“

Herdís segir fulltrúa foreldrafélaga í Brasov hafa heimsótt samtök foreldrafélaga á Íslandi og einnig íslenska skóla. „Fólkið er mjög áhugasamt og það hefur verið auðvelt að vinna með því. Allt er gert af mikilli alúð.“

Það eru ekki bara stjórnvöld í Rúmeníu sem hafa beðið Herdísi um að miðla af þekkingu sinni heldur einnig stjórnvöld í Jórdaníu. Hún er auk þess í samstarfi við félagasamtök á Grænlandi.

Miðstöð slysavarna barna er eingöngu rekin með styrkjum frá IKEA og Sjóvá. Námskeiðin þar eru foreldrum að kostnaðarlausu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 29. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×