Innlent

Fluguveiði og blót á sumardaginn fyrsta

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Þessi böðuðu sig í sólinni á Klambratúni.
Þessi böðuðu sig í sólinni á Klambratúni. Fréttablaðið/Andri Marinó
Sólin skein skært í Reykjavík í gær sem var einkar viðeigandi fyrir sumardaginn fyrsta.

Borgarbúar tóku sólinni fagnandi en hátíðarhöld voru víðsvegar um borgina. Skátafélagið Landnemar brá á leik á Klambratúni í gær. Félagið bauð börnum að leika sér í hoppukastala og að reyna fyrir sér í klifurturni.

Renata Emilsson Peskova og Jóhannes Guðmundsson tóku þátt í hátíðarhöldunum í gær. „Þetta er í fyrsta sinn sem við tökum hjólatúr í bæinn,“ sagði Renata. „Við búum í Bústaðahverfi og tókum þátt í skrúðgöngu þar. Síðan komum við á Klambratún og skoðuðum safnið.“

Sjá einnig: 80 manns í vatnsslag á Lakjartorgi

Ásatrúarfélagið var einnig búið að koma sér fyrir á Klambratúni. „Þetta er síðasti heiðni helgidagurinn í dagatali ásatrúarmanna,“ sagði Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði Ásatrúarfélagsins. „Ásatrúarfélagið var stofnað sumardaginn fyrsta árið 1972. Á þessum degi þökkum við fyrir veturinn og fögnum komandi sumri. Áður fyrr var þetta kallað sigurblót. Við erum að fagna sigursælu ári,“ sagði Hilmar.

Utan borgarmarkanna naut fólk sín einnig en við Rauðhóla nýttu hestamenn tækifærið og viðruðu hrossin í góða veðrinu. Við Elliðavatn voru veiðimenn önnum kafnir við að næla sér í eitthvað í soðið. „Þetta er fyrsti fiskurinn sem ég veiði hér,“ sagði Oscar Arnholdt-Olsson, þegar blaðamaður náði tali af honum. „Ég flutti til landsins í október síðastliðnum og hef veitt mikið síðan,“ sagði hann. Oscar er frá Malmö í Svíþjóð og sagir að þar sé sumarið heitara en á Íslandi en hann unir þó kuldanum. „Verstur er þó vindurinn þar sem ég veiði á flugu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×