Innlent

Flughálka víða um land

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Óveður er víða á vegum landsins.
Óveður er víða á vegum landsins. Vísir/Auðunn Níelsson
Mjög hált er víðs vegar um landið og er vissara fyrir vegfarendur að sýna aðgát. Þá er óveður einnig víða, meðal annars á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku og Mývatnsöræfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni sem sjá má hér að neðan.

Greiðfært er á öllum helstu leiðum á Suðurlandi en flughálka víða í uppsveitum Suðurlands.

Á Snæfellsnesi hefur hlánað mikið og er þess vegna hætta á að klakastykki falli úr Búlandshöfða niður á veg og eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát. Á norðanverðu Snæfellsnesi er greiðfært en óveður. Hálkublettir og óveður er á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku og Laxárdalsheiði.

Flughálka er á Þröskuldum og nokkuð víða á sunnanverðum Vestfjörðum þó eru vegir að mestu greiðfærir á láglendi. Greiðfært og hálkublettir eru í djúpinu. Óveður er á Ennishálsi.

Það er flughálka á nokkrum leiðum á Norðvesturlandi, þ.e. frá Sauðárkróki að Hofshósi og frá Dalvík að Öxnadal. Óveður er við Stafá og Siglufjarðarvegi en annars hálka eða hálkublettir á velflestum leiðum. Hálkublettir og óveður er í Langadal.

Á Norðausturlandi er flughált mjög víða í Eyjafirði, í Aðaldal, í Reykjahverfi og í Öxarfirði. Þungfært er á Hólasandi og óveður. Óveður er á Mývatnsöræfum en annars er hálka mjög víða á norðaustanlandi.

Hálka er á vegum á Austurlandi. Þæfingsfærð er á Hróarstunguvegi.  Flughálka er á Fjarðarheiði og á helstu leiðum kringum Egilsstaði en hálka með suðausturströndinni. Flughált er í Berufirði og Breiðdal.

Á veginum fyrir vestan Vík við Hrútafell rennur vatn yfir veg og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×