Innlent

Flúði lögreglu en sagðist ekki hafa ekið bílnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þá var ævilöng ökuréttarsvipting áréttuð og hnífurinn gerður upptækur.
Þá var ævilöng ökuréttarsvipting áréttuð og hnífurinn gerður upptækur. Vísir/Getty
33 ára karlmaður var í Héraðsdómi Reykjaness dæmdur í 75 daga fangelsi fyrir að aka ölvaður sviptur ökurétti og hafa í vörslu sinni fiðrildahníf. Dómur var kveðinn upp í dag.

Maðurinn var handtekinn í mars síðastliðnum eftir að hafa reynt að flýja úr bifreið sem hann hafði ekið norður Reykjavíkurveg í Hafnarfirði. Stöðvaði hann bifreið sína við Snælandsvídeó og reyndi að komast undan á hlaupum en án árangurs. Mældist vínandamagn í blóði yfir mörkum auk þess sem fjaðrahnífur fannst í bílnum.

Fyrir dómi viðurkenndi maðurinn að eiga hnífinn en þvertók fyrir að hafa ekið bílnum. Sagðist hann hafa verið farþegi í bílnum en ekki vilja gefa upp hver ökumaður bílsins væri. Fullyrti hann að lögreglumennirnir tveir sem höfðu hendur í hári hans hefðu ekki mögulega getað staðfest að hann hefði ekið bílnum.

Dómurinn taldi yfir vafa hafið að maðurinn hefði ekið bílnum. Í ljósi þess að hann hefði ítrekað verið tekinn ölvaður undir stýri og sömuleiðis verið sviptur ökuréttindum endurtekið rétt að dæma hann í tveggja og hálfs mánaða fangelsi. Þá var ævilöng ökuréttarsvipting áréttuð og hnífurinn gerður upptækur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×