Innlent

Flestir gifta samkynja með ánægju

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Nærri því allir prestar Þjóðkirkjunnar vilja gifta samkynja par í kirkju sinni séu þeir beðnir um það. Í úrtaki Fréttablaðsins voru 153 prestar skráðir hjá Þjóðkirkjunni.

Spurt var: Ef samkynja par biður þig um að gefa sig saman í hjónaband í kirkju, munt þú gera það?

Svarmöguleikar voru þrír: já, nei og óákveðinn. 

Hundrað og átta prestar svöruðu játandi, tveir sögðu nei, ellefu vildu ekki taka þátt og einn var óákveðinn. Ekki náðist í þrjátíu og einn prest.

Langflestir þeirra sem svöruðu játandi bættu því við að þeir myndu gera það af mikilli ánægju. Séra Sigfús Kristjánsson er einn þeirra. „Ég gaf saman tvær konur daginn sem hjúskaparlögin tóku gildi og mun gera það aftur ef ég er beðinn um það.“

Solveig Lára Guðmundsdóttir
„Að sjálfsögðu mun ég gera það. Mér þykir samviskufrelsi fáránlegt orð. Veit ekki hver hefur búið þetta til. Persónulega finnst mér að það eigi að afnema þetta úr lögunum,“ sagði séra Solveig Lára Guðmundsdóttir.

Vilja ekki koma fram undir nafni

Prestar sem vilja ekki gifta samkynja par eru í miklum minnihluta í Þjóðkirkjunni, reyndar aðeins tveir. Í könnun 24 Stunda frá árinu 2008 þar sem prestar voru spurðir hvort þeir myndu staðfesta samvist samkynhneigðra vildu níu prestar ekki staðfesta samvist samkynja pars og 27 voru óákveðnir. Tveir þeirra sem sögðu nei í þeirri könnun hafa skipt um skoðun og segja nú já.

Þeir tveir sem sögðu nei í könnun Fréttablaðsins vildu ekki gera það undir nafni. Annar prestanna sagði ástæðuna vera þá að skoðunin væri óvinsæl, bæði á meðal sóknarbarna og presta. Hann myndi eiga erfitt með að sinna vinnu sinni ef hann tjáði sig um málefnið opinberlega. Hann segist myndu gefa saman tvær konur í hjónaband en ekki tvo karla vegna þess að konurnar gætu þó alið barn.

Geir Waagevísir/gva
Óttast usla sóknarbarna

Ellefu prestar vildu ekki taka þátt í könnuninni og ástæður þess voru margvíslegar.

Séra Geir Waage vill ekki svara spurningunni og segir hana einfaldlega ekki á dagskrá Þjóðkirkjunnar. „Á sínum tíma var þessari spurning svarað á Prestastefnu og síðan þá hefur ekkert breyst,“ segir hann. „Ég færist undan því að tjá mig um þetta yfirhöfuð, það er ekki tímabært. Þá verður að ræða þetta á allt öðrum forsendum og ekki í því samhengi sem fréttamiðlarnir setja málið fram. Prestur á ekki skyldur við aðra en sóknarbörn sín.“

Þrír prestar vildu segja já en treystu sér ekki til að gera það opinberlega. Einn sagði það myndu valda usla á meðal sóknarbarna sinna sem hefðu tjáð sér að þau myndu ekki koma inn í kirkjuna ef hann gæfi þar saman samkynja par.

Annar sagði það myndu valda óþarfa illindum í þeirri kirkju sem hann starfar í. Sá þriðji svaraði á sömu nótum en bætti því við að honum fyndist minnihluti presta Þjóðkirkjunnar sem krefst þess að prestar megi hafna samkynja pörum hávaðasamur og frekur.

Nokkrir prestar voru því einfaldlega mótfallnir að þurfa að svara spurningunni líkt og Geir Waage. Einn prestur taldi umfjöllun Fréttablaðsins aðför að Þjóðkirkjunni. Séra Flóki Kristinsson vildi ekki taka þátt í könnuninni og sagðist einfaldlega búinn að fá nóg af málinu. Þá vildu tveir prestar sem svöruðu spurningunni játandi mótmæla umfjöllunum fjölmiðla og sögðu hana alla í neikvæðu ljósi. „Ég er ekki hrifinn af svona nornaveiðum, það geta verið aðrar ástæður fyrir því að prestar treysta sér ekki til þessa, að þeir hafi ekki umboð til þess byggt á ritningunni.“



Verði meinað að mismuna

Sr. Kristján Björnsson, sr. Guðrún Karls Helgudóttir, sr. Vigfús Bjarni Albertsson, sr. Bryndís Malla Elídóttir og sr. Páll Ágúst Ólafsson, öll þjónandi prestar og stjórnarfólk í Prestafélagi Íslands, svöruðu spurningunni játandi.

Þau segja gagnrýni á presta Þjóðkirkjunnar réttmæta í ljósi þess að Íslendingar vilja vera til fyrirmyndar í mannréttindabaráttu. „Það hefur líka verið réttmætt í ljósi þess að þjónusta prestanna krefst þess að þeir mæti hverjum einstaklingi á sama hátt og Jesús gerði, þ.e. í kærleika og virðingu fyrir manngildinu.“

Guðrún segist munu leggja fram þingsályktunartillögu á næsta kirkjuþingi sem verður haldið þann 24. október næstkomandi. „Efni tillögunnar er að kirkjuþing álykti að prestum verði meinað að hafna pörum um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar. Það er að segja að ekki eigi að gilda aðrar reglur um presta Þjóðkirkjunnar en borgaralega vígslumenn. Persónulega tel ég að þau sem eru með vígsluleyfi eigi að fara að lögum,“ segir Guðrún. 

Hún segir mörgum prestum hafi sárnað umræða síðustu daga í tengslum við samviskufrelsi. „Mín tilfinning er að eftir þessa umfjöllun líti kirkjan út fyrir að vera á móti hjónabandi samkynja para. Á meðan prestar voru í fararbroddi þegar hjúskaparlögin voru samþykkt. Yfir 90% presta þjóðkirkjunnar eru öflugir stuðningsmenn samkynhneigðra.“

Vill breyta lögum

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, ætlar að leggja fram þingsályktun um að fela innanríkisráðherra að breyta lögum á þann hátt að löggerningur hjónavígslna og nafngifta fari frá trúfélögum til borgaralegra vígslumanna.

Tillagan er svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að vinna og leggja fram nauðsynlegar lagabreytingar svo hjónavígsluréttindi og skráning nafngifta verði alfarið flutt til borgaralegra embættismanna. Frumvörpin verði lögð fram svo fljótt sem auðið er, þó ekki síðar en 31. mars 2016.“ kristjanabjorg@frettabladid og fréttastofa 365.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×