Innlent

Fleiri glíma við langtímaatvinnuleysi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Háskólamenntuðum á atvinnuleysisskrá hefur fjölgað um tvö prósent undanfarið ár og eru nú 24 prósent atvinnulausra.
Háskólamenntuðum á atvinnuleysisskrá hefur fjölgað um tvö prósent undanfarið ár og eru nú 24 prósent atvinnulausra. vísir/daníel
Af þeim sem eru á atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar í júlí glíma 54 prósent við langtímaatvinnuleysi eða um 3.200 manns. Með langtímaatvinnuleysi er átt við þá sem hafa verið atvinnulausir í sex mánuði eða lengur, en af þessum hópi hafa rúmlega 1.600 verið atvinnulausir í ár eða lengur.

Langtímaatvinnuleysi hefur aukist jafnt og þétt frá því í september í fyrra. Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir áhyggjuefni að á meðan atvinnuástandið batni almennt, fækki ekki í þessum hópi. „Þessar tölur segja ekki allt því hópurinn sem er búinn með bótarétt og fær fjárhagsaðstoð fellur utan við mælingar okkar og er ekki inni í þessum tölum,“ segir Gissur.

Samkvæmt upplýsingum frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar fengu þremur prósentum fleiri fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg á tímabilinu janúar til maí á þessu ári, en á sama tíma í fyrra.

„Þetta er hætta sem skapast eftir kreppu,“ segir Gissur. „Enda samspil af heilbrigðislegum og félagslegum þáttum sem ýtir fólki út af vinnumarkaðnum til lengri tíma í kjölfar atvinnumissis.“

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir langtímaatvinnuleysi vera áhyggjuefni.vísir/vilhelm
Atvinnuleysi á landsvísu hefur hins vegar ekki verið lægra frá því í október árið 2008. Gissur segir skort á vinnuafli í mörg störf, svo sem í mannvirkjaiðnaðinum. Það sé þó beðið eftir fjölgun á störfum sem eru betur borguð og með hærri menntunarkröfur og vísar Gissur þar til háskólamenntaðra, en það er næststærsti hópur atvinnulausra og eini hópurinn þar sem atvinnulausum hefur fjölgað.

Í dag eru háskólamenntaðir 24 prósent atvinnulausra og til samanburðar eru iðnmenntaðir eingöngu rúmlega tíu prósent. Þeir sem hafa eingöngu grunnskólamenntun eru þó enn í stærstum hluta eða 44 prósent atvinnulausra. Þróunin virðist þó vera sú að þeim fækki á atvinnuleysisskrá, á meðan háskólamenntuðum fjölgar. 

Þriðji áhyggjuþátturinn að mati Gissurar eru erlendir ríkisborgarar.

„Það gengur verr að koma fólki sem ekki er með málakunnáttu í störf. Þetta er fólk sem fékk störf á uppgangstíma en á erfitt með að komast aftur út á vinnumarkaðinn,“ segir Gissur en erlendir ríkisborgarar eru 19 prósent þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá og tæplega sextíu prósent þeirra eru Pólverjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×