Innlent

Fjórir af hverjum fimm enda á leigumarkaði eftir nauðungarsölu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra vísir/ernir
81% Suðurnesjafjölskyldna, sem misstu húsnæði sitt á nauðungarsölu á árunum 2008-2011, búa nú í leiguhúsnæði. Margar fjölskyldur notfærðu sér ekki þau úrræði sem í boði voru vegna skorts á upplýsingum um þau. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum könnunar sem gerð var af Velferðarráðuneytinu.

Í desember 2012 voru birtar niðurstöður rannsóknar um nauðungarsölu íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum á árunum 2001-2011 í ljósi þess að nauðungarsölur voru þar hlutfallslega mun algengari en annars staðar á landinu.

Í framhaldi af þeirri könnun var ákveðið að afla ítarlegri upplýsinga um þá sem misstu húsnæði sitt, með sérstakri áherslu á barnafjölskyldur og liggja þær niðurstöður nú fyrir. Í úrtaki voru 335 einstaklingar og fjölskyldur en 150 svöruðu.

Líkt og áður segir búa 81% nú í leiguhúsnæði, tæp níu prósent í eigin húsnæði og um tíu prósent inn á ættingjum eða hafa afnot af húsnæði í eigu ættingja eða vina. Í apríl 2014 voru börn búsett á um helmingi þeirra heimila þar sem húsnæði var selt á nauðungarsölu. Um 45% barnanna þurftu að skipta um skóla, um 32% barnanna misstu tengsl við vini sína samkvæmt upplýsingum svarenda og um 15% þeirra þurftu að hætta í tómstunda- eða íþróttastarfi.

Hátt hlutfall svarenda (63%) sem misst hafði húsnæði á nauðungarsölu hafði ekki nýtt sér nein úrræði vegna fjárhags- eða húsnæðisvanda. Viðmælendur vissu ýmist ekki af þeim, skildu þau ekki eða fengu misvísandi upplýsingar frá ólíkum aðilum um hvaða úrræði stæðu til boða og hvernig ætti að bera sig eftir þeim.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir niðurstöður könnunarinnar undirstrika hve mikilvægt sé að skapa húsnæðismarkað með fjölbreyttum valkostum sem henta ólíkum aðstæðum fólks og efnahag: „Við getum ekki tryggt öllum öruggt húsnæði nema með því að gera leiguhúsnæði og búseturétt að raunhæfum kosti. Niðurstöðurnar sýna líka glöggt hve mikið er í húfi til að búa börnum, öllum börnum öruggt heimili.“

Hægt er að lesa úttektina í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×