Íslenski boltinn

Fjölnismenn fóru illa með KR í kvöld og komust í úrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingimundur Níels Óskarsson kom Fjölni í 1-0 í leiknum.
Ingimundur Níels Óskarsson kom Fjölni í 1-0 í leiknum. Vísir/Eyþór
Fjölnir og Valur spila til úrslita um Reykjavíkurmeistaratitil karla í fótbolta í ár en undanúrslitaleikirnir fóru báðir fram í kvöld.

Valsmenn höfðu áður unnið Víkinga í vítakeppni en það var engin spenna í seinni leiknum þar sem Fjölnismenn léku séu að KR-ingum.

Fjölnir vann KR 3-0 og mætir Val í úrslitaleiknum á mánudagskvöldið kemur.  Þetta er sögulegur leikur fyrir Grafarvogsfélagið enda komið alla leið í Reykjavíkurmótinu í fyrsta sinn.

Marcus Solberg Mathiasen skoraði tvö mörk en það var gamli KR-ingurinn, Ingimundur Níels Óskarsson, sem kom Fjölni í 1-0 undir lok fyrri hálfleiks. Marcus Solberg skoraði bæði mörkin sín í seinni hálfleiknum.

Fjölnismenn höfðu tapað í undanúrslitum Reykjavíkurmótsins undanfarin tvö ár en nú tókst að fara alla leið.

Fjölnir tapaði undanúrslitaleiknum fyrir Leikni í fyrra og Val þar áður en bæði liðin sem slógu út Grafarvogsliðið urðu síðan Reykjavíkurmeistarar.

Þetta er í fyrsta sinn sem karlalið Fjölnis kemst alla leið í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins.

Upplýsingar um markaskorara leiksins er fengin úr textalýsingu vefsíðunnar fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×