Íslenski boltinn

Fjölnir getur unnið sinn fyrsta titil í Egilshöllinni í kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hvort verður Valur eða Fjölnir meistari í kvöld?
Hvort verður Valur eða Fjölnir meistari í kvöld? vísir/stefán
Annar af þremur bikurum sem í boði eru á undirbúningstímabilinu í fótbolta karla fer á loft í kvöld þegar úrslitaleikur Reykjavíkurmótsins fer fram í Egilshöll. Þar eigast við Fjölnir og Valur en leikurinn hefst klukkan 19.00 og er sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 HD.

Gríðarlegur munur er á sögu liðanna í þessari keppni. Valsmenn hafa 21 sinni fagnað sigri í þessari keppni, síðast fyrir tveimur árum en Valur hefur leikið til úrslita undanfarin tvö ár. Lærisveinar Ólafs Jóhannessonar töpuðu fyrir Leikni í úrslitum í fyrra.

Fjölnir hefur aldrei ungri sögu félagsins komist í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins og getur unnið sinn fyrsta bikar í sögunni verði það meistari í kvöld. Karlalið Fjölnis spilaði tvo bikarúrslitaleiki í röð árið 2007 og 2008 en tapaði í bæði skiptin. Fjölnir er eina Reykjavíkurfélagið sem hefur ekki orðið Reykjavíkurmeistari.

Grafarvogsliðið er búið að spila best allra í Reykjavíkurmótinu til þessa en eins og Vísir fjallaði um síðustu viku hafa ungir miðverðir og ungur markvörður Fjölnis heillað mikið hingað til. Fjölnir er búið að spila fjóra leiki í mótinu án þess að fá á sig mark en markatala liðsins er 11-0.

Fjölnir valtaði yfir KR, 3-0, í undanúrslitum þar sem Marcus Solberg skoraði tvívegis eftir að Ingimundur Níels Óskarsson kom Fjölni í 1-0 í fyrri hálfleik. Valsmenn gerðu markalaust jafntefli við Víking þrátt fyrir að vera manni fleiri nær allan seinni hálfleikinn en tryggðu sér sigur í vítaspyrnukeppni.

Valur hafnaði í öðru sæti B-riðils á eftir Fjölni með sex stig af níu mögulegum. Liðin mættust í riðlakeppninni og þar vann Fjölnir sannfærandi sigur, 3-0. Marcus Solberg, Bojan Stefán Ljubicic og Þórir Guðjónsson skoruðu mörk Fjölnis í þeim leik.

Það kemur í ljós um klukkan 21.00 í kvöld hvort Fjölnir vinni sinn fyrsta bikar eða hvort Reykjavíkurmeistaratitlarnir verði 22 hjá Val.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×