Innlent

Fjölmörg vitni þegar menn vopnaðir ísöxum létu til skarar skríða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi innbrotsins í morgun.
Frá vettvangi innbrotsins í morgun. Vísir/Pjetur
Tveir menn brutust inn í skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar á Laugavegi 5 í miðbæ Reykjavíkur um korter í ellefu í gærkvöldi. Mennirnir voru meðal annars vopnaðir ísöxum sem þeir notuðu til að brjóta rúður á versluninni. 

Samkvæmt heimildum Vísis voru fjölmörg vitni að innbrotinu og létu mennirnir höggin dynja á rúðum verslunarinnar með miklum látum. Eftir að rúðan brotnaði áttu mennirnir auðvelt með að teygja sig í skartgripahyrslur og höfðu á brott með sér fjölmörg verðmæt úr.  

Miðað við þær lýsingar sem Vísir hefur heyrt á framgangi mannanna má telja eðlilegt að ekkert vitnanna hafi stokkið til og skorist í leikinn. Eigandi verslunarinnar vildi ekki tjá sig um innbrotið að svo stöddu.

Mennirnir eru ófundnir en málið er í rannsókn lögreglu. Lögregla vildi ekki tjá sig um innbrotið að svo stöddu en auglýsir eftir vitnum að ráninu. Hægt er að hafa samband við lögreglu í síma 444-1000.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×