Innlent

Fimm heimilisofbeldismál til kasta lögreglu á rúmum sólarhring

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Fimm heimilisofbeldismál hafa komið til kasta lögreglunnar á rúmum sólarhring. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu segir lögreglu sjá mikla fjölgun í heimilisofbeldismálum en um fimmtíu mál koma upp á  mánuði. 

Klukkan eitt í nótt var kona, sem varð þolandi heimilisofbeldis, flutt á slysadeild þar sem hún þurfti að leita lækninga.Lögregla handtók ofbeldismanninn á staðnum og vistaði hann í fangageymslu og var hann yfirheyrður í dag. 

Hryna slíkra mála dynur nú yfir því í fyrrakvöld fékk lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þrjár tilkynningar um slíkt og handtók tvo ofbeldismenn en sá þriðji komst undan. 

Þá barst ein tilkynning um heimilisofbeldi snemma í gærmorgun og var gerandinn handtekinn á vettvangi. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, telur að ástæða fleiri upplýstra mála sé verkefni lögreglunnar sem innleitt var í fyrsta sinn á Íslandi hjá lögreglunni á Suðurnesjum árið 2013.

vísir/ernir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók svo sama verklagið upp. „Já við höfum séð fjölgun. Verulega fjölgun á heimilisofbeldismálum frá því við breyttum verklagi. Áður hófst rannsókn málanna á síðara stigi en núna tökum við alla rannsóknin strax og reynum að tryggja sönnun strax. Við fáum inn félagsráðgjafa og barnavernd þegar það á við,“ segir Sigríður.  

Þannig sé reynt að vinna málið eins vel á vettvangi og kostur er. „Áður voru í kring um 20 mál sem voru að koma á mánuði inn til lögreglu en nú eru þau um fimmtíu,“ segir Sigríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×