Lífið

Ferðast norður í land í félagsskap hrútavina

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég hef verið alveg sérdeilis kvenheppinn um dagana,“ segir Sigurður dýralæknir sem hér er með seinni konu sinni, Ólöfu Erlu Halldórsdóttur.
"Ég hef verið alveg sérdeilis kvenheppinn um dagana,“ segir Sigurður dýralæknir sem hér er með seinni konu sinni, Ólöfu Erlu Halldórsdóttur. Mynd/úr einkasafni
„Ég hef nóg að gera og er ekkert farinn að eldast,“ segir hinn sjötíu og fimm ára Sigurður Sigurðarson dýralæknir hress. Hann er að leggja upp í ferð með glöðum hópi norður í land.

„Við hjónin ætlum með hrútavinafélaginu Örvari norður í Þistilfjörð. Erindið er að koma uppstoppaða sauðnum Gorba á forystufjársetrið á Svalbarði sem hann Daníel Hansen opnaði í sumar. Þetta er rútuferð og einir 25 þátttakendur. Þeir sem standa fyrir þessu eru Björn Ingi Bjarnason, formaður hrútavinafélagsins, og Guðni Ágústsson, en Gorbi er frá Brúnastöðum eins og hann.“

Sigurður segir marga viðkomustaði á leiðinni.

„Fyrst verður stoppað í Höfða þar sem leiðtoginn Gorbatsjov mætti á sínum tíma. Þangað kemur, að mér er sagt, rússneski sendiherrann til að kveðja þennan höfðingja.“

Á Sauðárkróki hefur Sigurður grun um eitthvert sprell í tilefni afmælis hans en gist verður á sjálfum Hólastað. Séra Sólveig Lára mun opna dómkirkjuna fyrir hrútavinum á morgun og þar ætlar Sigurður að kveða til dýrðar Hallgrími Péturssyni úr Passíusálmunum, enda afmælisár hjá báðum.



Hann býst við að Gorbi verði borinn inn á hverjum stað og stökkt á hann eilífu vatni. „Ætli ég fari ekki með vatn úr Maríubrunninum á Keldum? Það hefur lækningamátt og hver veit nema hægt verði að kveikja líf með því,“ segir dýralæknirinn andaktugur þó hláturinn kraumi undir niðri.

Árleg hrútahátíð með uppboði og markaðsstemningu verður á Raufarhöfn um helgina og þangað stefnir flokkurinn, með Níels Árna Lund sem sérlegan leiðsögumann um Þingeyjarsýslur. Í lokin verður hagyrðingamót og dansleikur.

Þeir sem þekkja Sigurð vita að hann er söngelskur maður. „Ég hef enn gaman af að kveða og ætla hvar sem við komum að kenna mönnum að minnsta kosti eina stemmu,“ heitir hann.

Annars er hann að ganga frá síðustu myndum í minningabókina Sigurður dýralæknir númer 2. Hún á að koma út í afmælismánuðinum og enn er hægt að skrifa sig á heillaóskalista.

„En ég var of duglegur að skrifa og varð að henda út heilum kafla um presta sem var afskaplega slæmt því þeir eru mínir uppáhaldsmenn,“ segir hann. „Hreindýrin lentu út í kuldanum líka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×