Íslenski boltinn

Fer að munda skotfótinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Loksins skoraði FH fyrir utan teiginn.
Loksins skoraði FH fyrir utan teiginn. Fréttablaðið/Arnþór
Annað mark FH í 2-0 sigrinum gegn Fylki í Pepsi-deild karla í fótbolta á sunnudagskvöldið var nokkuð merkilegt. Emil Pálsson skoraði þá með fallegu skoti fyrir utan teig sem söng í netinu.

Þetta var hvorki meira né minna en fyrsta markið sem FH-ingar skora fyrir utan teig í rúm tvö ár, eða síðan Viktor Örn Guðmundsson, sem er einmitt leikmaður Fylkis í dag, skoraði á móti Keflavík í þriðju umferðinni 2012.

FH spilaði 38 leiki í röð og skoraði 78 mörk án þess að skora mark fyrir utan teig þar til Emil tók sig til og þrumaði boltanum í netið á sunnudagskvöldið.

„Jesús minn, þetta eru fáránlegar tölur,“ sagði Emil þegar Fréttablaðið bar þetta undir hann. „Við þurfum greinilega að komast sem næst markinu til að skora,“ bætti hann við léttur.

„Við höfum verið með frábæra skotmenn eins og Björn Daníel en samt ekkert verið að skora fyrir utan teig. Við skorum heldur aldrei úr aukaspyrnum. Markið sem Kristján Gauti skoraði í Evrópudeildinni úr aukaspyrnu var það fyrsta sem við skoruðum síðan ég kom í FH. En nú fer ég bara að munda skotfótinn í næstu leikjum,“ sagði Emil léttur í lund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×