Innlent

Farþegar Primera Air leita réttar síns

Birgir Olgeirsson skrifar
Farþegar Primera Air á Shannon-flugvelli.
Farþegar Primera Air á Shannon-flugvelli. Vísir
Farþegarnir sem voru í vél Primera Air á leið frá Tenerife á Spáni til Keflavíkur hafa ákveðið að leita réttar síns vegna þeirra seinkunar sem varð á fluginu. Frá því farþegarnir lögðu af stað frá Tenerife og voru lentir á Keflavíkurflugvelli liðu um 26 klukkutímar en ef allt eðlilegt á ekki að taka nema um rúmlega fimm stundir að fara þessa leið með flugvél.

Um 150 Íslendingar voru í vélinni sem átti að lenda á Keflavíkurflugvelli að kvöldi sunnudagsins 26. ágúst síðastliðinn. Við brottför frá Spáni var farþegunum tilkynnt að vélin væri mjög þung og því þyrfti að millilenda á Shannon-flugvelli á Írlandi til að taka eldsneyti.

Sömuleiðis var tilkynnt að veðurspáin á Norðurlandi væri slæm og því væri ekki hægt að treysta á Akureyrarflugvöll sem varaflugvöll. Í aðdraganda lendingarinnar var farþegum sagt að það tæki um tuttugu mínútur að fylla vélina.

Eiginleg töf 8 klukkustundir

Við tók tveggja tíma bið á Shannon-flugvelli þar sem kom í ljós að áhöfn vélarinnar hafði unnið of lengi og mátti ekki halda áfram án lágmarkshvíldar. Var því tekin sú ákvörðun að koma farþegunum fyrir á hóteli og var áætluð brottför daginn eftir. Seinkun varð því á fluginu daginn eftir og er talið að eiginleg töf á þessu ferðalagi hafi verið um átta klukkustundir því vélinni seinkaði einnig frá Tenerife.

Í Evrópureglugerð númer 261, sem tekur til farþega í áætlunarflugi og leiguflugi, eru fastsett lágmarksréttindi farþega ef þeim er neitað um far, flugi aflýst eða seinkun verður á flugi. Reglugerðin tekur til farþega á ferðalagi innan EES-svæðisins, svo og farþega sem leggja upp frá þriðja landi inn á EES-svæðið. Farþegi sem ferðast utan EES á réttindi skv. alþjóðasamningum sem flestar þjóðir eru aðilar að. Framkvæmd þeirra byggir í grunninn á því að farþegi þarf að sýna fram á tjón til að fá það bætt.

Samkvæmt henni eiga farþegar rétt á bótum ef:



  • A) Flugi seinkar um tvær klukkustundir eða meira í 1.500 kílómetra flugi eða styttra.
  • B) Flugi seinkar um þrjár klukkustundir eða meira í flugi innan Evrópubandalagsins sem er lengra en 1.500 kílómetrar og í öllu öðru flugi á bilinu 1.500 til 3.500 kílómetrar.
  • C) Ef flugi seinkar um fjórar klukkustundir eða meira í flugi sem fellur ekki undir A- eða B-lið.


Bæturnar miðast við eftirfarandi:

  • A) 250 evrur, um 36 þúsund krónur miðað við gengi dagsins, fyrir öll flug sem eru 1.500 kílómetrar eða styttri.
  • B) 400 evrur, tæpar 58 þúsund krónur miðað við gengi dagsins, fyrir öll flug innan Evrópubandalagsins sem eru lengri en 1.500 kílómetrar og fyrir öll önnur flug á bilinu 1.500 og 3.500 kílómetrar.
  • C) 600 evrur, tæpar 87 þúsund krónur miðað við gengi dagsins,  fyrir öll flug sem falla ekki undir A- eða B-lið.


Primera Air með málið í skoðun ásamt Samgöngustofu

Ljóst er að umrætt flug frá Tenerife til Keflavíkur ætti að falla undir C-lið þar sem um fjögur þúsund kílómetrar eru þar á milli og að um átta klukkustunda eiginleg seinkun var á fluginu.

Ásgeir Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Primera Air, segir flugfélagið vera að skoða málið í samstarfi við Samgöngustofu, hvort þessi umrædda seinkun falli undir þessa reglugerð. Í framhaldi af þeirri skoðun verður brugðist við eins og vera ber.

Inni á vef Samgöngustofu má lesa nánar um réttindi farþega hér.


Tengdar fréttir

Of miklar upplýsingar sköpuðu rugling

Ásgeir Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri hjá Primera Air, segir flugfélagið harmar þær miklu tafir sem urðu á flugi frá Tenerife til Íslands í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×