Innlent

Fallið frá því að byggja við Áslandsskóla

Stefán Árni Pálsson skrifar
Áslandsskóli í Hafnarfirði verður ekki stækkaður.
Áslandsskóli í Hafnarfirði verður ekki stækkaður. visir/VILHELM
Undanfarnar vikur hafa húsnæðismál Áslandsskóla verið til sérstakrar skoðunar þar sem áherslan hefur verið lögð á að finna lausn til frambúðar.

Á fundi fræðsluráðs í morgun fór bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson yfir málið og kynnti tillögu þar sem lagt verður til við bæjarstjórn að fallið verði frá því að byggja við skólann. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Þess í stað verði fjárfest í innra starfi skólans sem  um leið taki forystu í innleiðingu upplýsingatækni í hafnfirsku skólastarfi.

„Tillagan sem lögð var fram í morgun gerir ráð fyrir því  að  bekkjardeildum verði fækkað í einum árgangi, úr þremur bekkjum  í tvo  – það er hægt að gera án þess að farið sé yfir viðmið um stærð bekkja.  Einnig mun skólinn taka forystu í notkun upplýsingatækni í kennslunni. Munu kennarar og nemendur í 5. – 10. bekk fá afhentar spjaldtölvur og hefðbundin tölvustofa verður nýtt til almennrar kennslu. Þetta gerir það að verkum að ekki þarf að fara í dýrar framkvæmdir vegna húsnæðis,“  segir Rósa Guðbjartsdóttir formaður fræðsluráðs.

Tillagan sem samþykkt var að vísa til bæjarstjórnar:

„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að hætt verði við viðbyggingu Áslandsskóla sem áætlanir gerðu ráð fyrir að myndu kosta allt að 600-700 milljónir króna.  Þess í stað verði fjárfest í innra starfi skólans sem taki forystu í innleiðingu upplýsingatækni í hafnfirsku skólastarfi. Það verði m.a. gert með því að spjaldtölvuvæða alla 5. - 10. bekki og auka stöðugildi í tölvuumsjón um 50% frá 1. janúar næstkomandi.  Með þessu verður tölvustofa tekin undir almenna kennslu.  Samhliða verði gerðar breytingar á niðurröðun í bekkjardeildir þannig að húsnæði Áslandsskóla ásamt lausum kennslustofum, sem nú eru við skólann, hýsi alla nemendur skólans með góðu móti án stækkunar.“

„Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu og mikilvægt að hún er tekin í sátt og í samstöðu með skólastjórnendum.  Ekki síst er það ánægjulegt að við höfum með þessu tækifæri til að fjárfesta í fólki, í nemendum og kennurum í stað steinsteypu,“ segir Rósa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×