Lífið

Fagnar fimmtugsafmælinu á Cancun í skugga sjómannadeilu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Einn sætasti sigurinn á þjálfaraferli Teits var bikarsigur Stjörnunnar á stórskotaliði KR í Laugardalshöllinni árið 2009.
Einn sætasti sigurinn á þjálfaraferli Teits var bikarsigur Stjörnunnar á stórskotaliði KR í Laugardalshöllinni árið 2009. Vísir/Daníel
Einn sigursælasti körfuboltamaður Íslandssögunnar, Teitur Örlygsson, fæddist 9. janúar 1967 og er því fimmtugur í dag.

Hann var staddur í Leifsstöð á leiðinni til Mexíkó þegar Fréttablaðið náði í hann. Hann ætlar að vera í viku í Cancun ásamt konu sinni.

Teitur Örlygsson þekkir Íslandsmeistarabikarinn betur en flestir.
Ekki mikið afmælisbarn

Teitur segist vera lítið afmælisbarn og er ekki gefinn fyrir það að halda upp á daginn. „Ég held ég hafi haldið síðast upp á tvítugsafmælið. En það var reyndar mjög gott partí,“ segir hann og bætir við að það hafi bara verið partí eins og menn halda þegar þeir verða tvítugir. 

Hann segist ekki hafa neina dagskrá fyrir ferðina til Mexíkó. „Þetta verður bara afslöppun, góður matur og sól.“ 

Auk þess að vera viðloðandi körfuboltaþjálfun starfar Teitur við fiskútflutning og hefur unnið við það í meira en áratug. Hann segir stöðuna þar vera mjög erfiða vegna verkfalls sjómanna. „Það er hrikaleg staða þar og leiðinlegt að sjá hvernig þetta er að fara í hart. Þetta virðist bara harðna með hverjum deginum,“ segir Teitur og bætir við að það sé því ágætt að kúpla sig bara út og fara í frí.

Fyrstur til að vinna tíu titla

Teitur átti farsælan ferli sem körfuboltamaður. Hann lék allan tímann með Njarðvík, ef undanskilið er tímabilið 1996-1997. Þá lék hann með Larissa í Grikklandi. Hann lék samtals 405 deildarleiki og skoraði í þeim 6.579 stig, eða 16,2 stig að meðaltali í leik.

Á vef Körfuknattleikssambands Íslands kemur fram að Teitur varð fyrstur leikmanna til að vinna tíu Íslandsmeistaratitla í úrvalsdeild. Agnar Friðriksson, leikmaður ÍR, vann sama afrek í gömlu 1. deildinni, sem var forveri úrvalsdeildarinnar, á árunum 1962-1977.

Eftir að ferli hans sem leikmanns lauk hefur hann verið þjálfari, bæði hjá Njarðvík og Stjörnunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×