Innlent

Færri ölvaðir teknir undir stýri

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Lögregla ræðir við ökumann í miðbænum að næturlagi.
Lögregla ræðir við ökumann í miðbænum að næturlagi. vísir/hari
Skráð brot vegna ölvunaraksturs í fyrra á höfuðborgarsvæðinu voru nær helmingi færri en árið 2007, eða 651 á móti 1.266. Skráð brot vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna voru rúmlega tvöfalt fleiri árið 2015 en árið 2007, eða 803 á móti 337.

Jónas Orri Jónasson, félagsfræðingur hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, segir ýmsar skýringar geta verið á sveiflum milli ára. „Þetta getur meðal annars farið eftir áherslum hverju sinni, það er hversu mikill mannafli og tími er settur í verkið.“

Herferð á Facebook-síðu lögreglunnar í desember undanfarin tvö ár gegn ölvunarakstri, Hver ekur þér heim um hátíðarnar?, er mögulega farin að hafa áhrif, að mati Jónasar.

Ein skýringin á mismuninum á fjölda brota vegna ölvunaraksturs 2007 og 2015 getur tengst hruninu, að því er Jónas telur. „Eftir hrun hækkaði áfengisverð auk þess sem minna var um móttökur og fleira í þeim dúr þar sem boðið var upp á áfenga drykki. Vegna færri tækifæra til drykkju má ætla að dregið hafi úr ölvun við akstur.“

Jónas Orri Jónasson, félagsfræðingur
Hann bendir á að ýmislegt skýri fjölgun brota vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna. „Þótt fleiri náist núna þýðir það ekki endilega að fleiri séu að aka undir áhrifum. Árið 2006 var lögum og verklagi lögreglu vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna breytt. Lagagrunnurinn hafði fram að því verið veikur sem gerði lögreglu erfitt fyrir að takast á við þessi brot. Aukin þekking og betri búnaður lögreglunnar til að greina áhrif veldur því að færri komast upp með að aka undir áhrifum.“

Jónas tekur fram að sami einstaklingur geti hafa verið tekinn oftar en einu sinni. Eins geti nokkrir verið teknir í einu vegna óvissu um hver var raunverulega við stýrið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×