Lífið

Eru himinlifandi yfir frábærum viðtökum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Framleiðendur, leikstjóri, tónlistarmenn og klippari fylgdu myndinni eftir á hátíðina og voru viðstödd frumsýninguna.
Framleiðendur, leikstjóri, tónlistarmenn og klippari fylgdu myndinni eftir á hátíðina og voru viðstödd frumsýninguna. mynd/Hrafnhildur
Heimildarmyndin The Greatest Shows on Earth, sem leikstýrt er af Benedikti Erlingssyni og framleidd af Sagafilm fyrir BBC, var frumsýnd á föstudag á Sheffield-kvikmyndahátíðinni, einni stærstu heimildarmyndarhátíð í heimi.

Frumsýningin opnaði hátíðina og segir Margrét Jónasdóttir, einn framleiðandi myndarinnar, að hún hafi gengið stórvel. „Mikill heiður að fá að opna festivalið, þetta er ein af stærstu heimildarmyndahátíðum í bransanum.“

Myndin segir sögu farandsirkusfólks, furðuvera og fjöllistamanna en við gerð hennar var notast við myndefni allt frá lokum 19. aldar. Myndin er án tals og skipar tónlistin því veigamikinn þátt en hún kemur úr smiðju Georgs Hólm og Orra Páls Dýrasonar úr Sigur Rós og er unnin í samstarfi við Hilmar Örn Hilmarsson og Kjartan Dag Hólm.

Farið er fögrum orðum um myndina í dóm sem birtist á sunnudaginn á vefsíðu The Guardian en þar fær hún fjórar stjörnur af fimm og er Benedikt og tónlistinni hælt í hástert. „Þetta var mjög stór stund fyrir okkur og við erum náttúrulega alveg himinlifandi yfir dómunum sem kom í The Guardian í dag,“ segir Margrét og bætir við að myndin verði frumsýnd með stæl hérlendis á næstunni.

Davíð Alexander Corno klippir myndina og framleiðendur eru Margrét Jónasdóttir, Mark Atkin, Heather Croall og Vanessa Toulmin prófessor.-






Fleiri fréttir

Sjá meira


×