Innlent

Erfðabreyttar lífverur í íslenskri búfjárrækt

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Talsvert af erfðabreyttu fóðri er flutt inn til Íslands til notkunar í íslenskri búfjárrækt.
Talsvert af erfðabreyttu fóðri er flutt inn til Íslands til notkunar í íslenskri búfjárrækt. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Talsvert af erfðabreyttu fóðri er flutt inn til Íslands til notkunar í íslenskri búfjárrækt. Kjötafurðir, egg og mjólkurafurðir eru framleiddar af búfé sem fóðrað er af erfðabreyttu fóðri að einhverju leyti.

Á mánudag verður haldin ráðstefna um erfðabreyttar lífverur undir yfirskriftinni Er erfðabreytt framleiðsla sjálfbær? Einkum verður fjallað um reynslu Bandaríkjanna af notkun erfðatækni í matvælaframleiðslu, vísindarannsóknir á erfðabreyttum lífverum og  hvort aðrar leiðir séu vænlegri til árangurs m.a. í íslenskri búfjárrækt.

Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur stendur að ráðstefnunni og er Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Túns einn skipuleggjenda.

Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri TúnsAðsend mynd
„Niðurstöður rannsókna benda til þess að erfðatækni sé áhættusöm og ófyrirséð í afleiðingum sínum. Með kynningarátakinu og ráðstefnunni viljum við koma þessum upplýsingum á framfæri og benda á aðra valkosti. Í öðru lagi hefur átakið barist fyrir því að allar erfðabreyttar vörur séu merktar og það markmið hefur nú náðst að nokkru leyti. En neytendur víða um heim eru farnir að gera kröfur um að afurðir búfjár sem alið er á erfðabreyttu fóðri séu líka merktar og það gæti styrkt íslenska matvælaframleiðendur ekki síst fyrir útflutning ef rétt er á haldið. Í þriðja lagi hefur kynningarátakið varað við sleppingu erfðabreyttra plantna, þ.e. ræktun þeirra utandyra, í ljósi þeirrar áhættu og óvissu sem rannsóknir sýna að það geti haft í för með sér," segir Gunnar.

Dæmi um erfðabreyttar plöntur eru HT-plöntur sem er búið að erfðabreyta þannig að þær þola ákveðið illgresiseitur. Annað dæmi er BT-plöntur en þá er búið að setja skordýraeitur í frumur plöntunnar þannig að skordýr sem nagar í plöntuna drepst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×