Heilsa

Er til uppskrift að árangri?

Nanna Árnadóttir skrifar
Pakkaðu fjölbreyttu nesti og undirbúðu það kvöldinu áður svo auðvelt sé að kippa því með sér, það dregur úr líkum á að þú grípir í óhollustu milli mála.
Pakkaðu fjölbreyttu nesti og undirbúðu það kvöldinu áður svo auðvelt sé að kippa því með sér, það dregur úr líkum á að þú grípir í óhollustu milli mála. Vísir/Getty
Margoft sjáum við fólk sem við lítum upp til. Sumir líta upp til fólks sem vegnar vel í atvinnulífinu, aðrir líta upp til þeirra sem virðast alltaf þora að gera það sem þeir vilja og enn aðrir líta upp til þeirra sem virðast alltaf ná að halda sér á beinu brautinni þegar kemur að heilsusamlegum lífsstíl. Það er gott og hollt að hafa einhverja jákvæða fyrirmynd til að líta upp til svo lengi sem fyrirmyndin hvetur mann áfram í þeim lífsháttum sem maður sækist eftir en dregur ekki úr manni kraftinn.

Ég hef lengi fylgst með fólki sem hefur náð að gera líkamsrækt að lífsstíl og skemmtun en ekki kvöð. Ég hef einnig lagt það í vana minn að fylgjast með þeim sem ná að halda uppi aga þegar kemur að hollu mataræði og reynt að tileinka mér venjur þeirra. Að fá hugmyndir frá öðrum getur verið ómetanlegt þegar manni finnst maður standa í stað eða þegar maður nær ekki markmiðum sínum. Ég ætla því að gefa ykkur nokkur góð ráð sem ég hef náð að tileinka mér í gegnum árin í sambandi við heilbrigðan lífsstíl.

Skipulag skiptir öllu máli

Þegar kemur að bæði hreyfingu og mataræði skiptir skipulagið höfuðmáli. Settu fötin í íþróttatöskuna áður en þú ferð að sofa og taktu hana með þér í vinnuna svo þú þurfir ekki að koma heim áður en þú ferð að hreyfa þig. Þegar þú ert komin heim ertu mun líklegri til þess að setjast í sófann og nenna ekki að standa upp aftur. Ef þú ferð út að hlaupa eða gerir æfingar heima hjá þér vertu þá búin að ákveða hvenær þú ætlar að gera það og stattu við það.

Í sambandi við mataræðið er mikilvægt að nota kvöldin áður en maður fer að sofa í að gera nesti. Í fyrsta lagi eru minni líkur á því að þú stelist í lúguna á AktuTaktu ef þú tekur nesti með þér og í öðru lagi er alltaf hætta á því að þú vaknir seint og náir ekki að gera nestið um morguninn svo vendu þig á að gera það alltaf áður en þú ferð að sofa. Það er einnig góð regla að kaupa inn fyrir vikuna og eiga alltaf hollan og góðan mat í ísskápnum.

Vertu með æfingaáætlun

Ég mæli eindregið með því að vera með æfingaáætlun að minnsta kosti mánuð fram í tímann svo þú vitir hvað þú ert að fara að gera á æfingunni og af hverju þú ert að gera það. Það gerir æfinguna bæði skemmtilegri, þú veist alltaf hvað þú átt mikið eftir og þú getur ekki farið í einhverjar rökræður við púkann í höfðinu um að nú sé komið nóg.

80 prósentin skipta máli

Ég hef reynt að tileinka mér þá reglu að það sem ég geri og borða 80 prósent af tímanum sé það sem skipti máli. Ef ég mæti reglulega á mínar æfingar og borða reglulega hollan og góðan mat skiptir ekki máli þótt ég fái mér súkkulaðibita í afmælinu sem ég fer í eða panti mér pitsu eitt kvöldið.

Það skiptir ekki máli vegna þess að ég stend alltaf upp aftur og held áfram að borða hollan mat og mæta á æfingar.

Þetta er aðeins brot af þeim venjum sem ég hef tileinkað mér og mun ég deila með ykkur fleiri ráðum í næsta pistli!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×