Skoðun

Er það nú góður bissness?

Þóranna K. Jónsdóttir skrifar
„Hvers konar bissness er nú það?“ hváði vinur minn á dögunum þegar ég sagði honum að ég væri að gefa út mína fyrstu bók á Amazon og hún myndi verða ókeypis fyrstu dagana. Eðlilega skildi hann ekki alveg hvers konar viðskiptavit markaðsnördinn hefði að gefa bara verkið sitt.

Í frábæru YouTube-vídeói bendir rithöfundurinn Neil Gaiman á að fæstir uppgötva uppáhaldsrithöfundinn sinn með því að labba inn í bókabúð og kaupa bók eftir hann. Flestir uppgötva hann með því t.d. að fá bókina lánaða. Eftir því sem bækurnar hans dreifðust meira frítt á netinu sá hann líka gríðarlega aukningu í sölu.

Er hún ókeypis?Það er heldur ekki þar með sagt að bókin sé ókeypis. Fólk þarf að „kaupa“ hana með því að vera tilbúið að eyða tíma og orku í lesturinn. Ef því líkar það sem það fær, þá er það tilbúið að kaupa aðeins dýrara verði næst, með því að borga og eyða tíma. Ef þú vilt koma þér og þínu á framfæri, þá verðurðu að gefa fólki tækifæri til að „smakka“. Með því nærðu að koma á sambandi sem þú getur svo ræktað áfram.

Annað sem svona frítt „smakk“ gerir er að koma orðinu af stað. Einhver prufar, líkar við og segir öðrum frá, hvort sem það er maður að manni, eða t.d. með því að skilja eftir ritdóm á Amazon. Allt þetta er nauðsynlegt til að koma hlutum á framfæri. Úti í hinum stóra heimi er ég algjörlega óþekkt stærð. Hver myndi rjúka til og kaupa bók eftir mig á Amazon ef enginn talaði um hana og það væru engir ritdómar?

Gefðu af þérFyrsta skrefið er að ná athyglinni og svo að fá fólk til að kynnast þér, vörunum þínum eða þjónustu. Matvörufyrirtæki býður þér smakk þegar þú labbar í gegnum Bónus, fataverslanir bjóða þér að máta, þú reynsluekur bílnum, og þegar þú selur hugvitið þitt, þá verðurðu að sýna fólki hvað það fær. Gefðu af þér og fólk skilur betur hvað þú gerir, það byggir traust, fólk finnur hvort þú ert fyrir það og þú sýnir hvað þú ert fær á þínu sviði. Við skulum vona að ég hafi meira að gefa úr kollinum en kemst í eina litla bók ;) Þess vegna var það góður bissness að gefa bókina mína.




Skoðun

Skoðun

Al­einn í heiminum?

Lukka Sigurðardóttir,Katrín Harðardóttir ,Margrét Kristín Blöndal skrifar

Sjá meira


×