Fótbolti

Enskur og danskur meistari sama tímabilið og þakkar Guði fyrir það

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ganverjinn Daniel Amartey, leikmaður Englandsmeistara Leicester, fagnaði öðrum landstitli sínum á tímabilinu á sunnudaginn þegar hann sneri aftur á Parken og fagnaði með sínu gamla liði, FC Kaupmannahöfn.

Hinn 21 árs gamli Amartey spilaði í eitt og hálft tímabil með FCK áður en hann var seldur til Leicester í janúar fyrir sex milljónir punda. Þar spilaði hann fimm leiki frá janúar og varð Englandsmeistari.

FCK hafði mikla yfirburði í dönsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð og fékk bikarinn afhentan eftir 2-1 heimasigur gegn AGF á Parken á sunnudaginn. Þar var Amartey mættur en hann er í miklum metum hjá FCK og stuðningsmönnum liðsinss.

„Ég er mjög ánægður að sjá stuðningsmennina aftur og mína gömlu liðsfélaga,“ segir Amartey í viðtali við heimasíðu FCK en myndband af fögnuði hans og viðtalinu má sjá hér að ofan.

„Á síðustu leiktíð urðum við ekki meistarar en ég sagði við strákana að við yrðum meistarar í ár. Ég sagði að ég yrði að koma aftur ef þeir myndu klára þetta og ég er ánægður að geta fagnað með þeim.“

Hann þakkaði manninum að ofan fyrir árangurinn á þessari leiktíð: „Ég þakka Guði fyrir það því hann stendur fyrir þessu. Ég er bara þakklátur fyrir tækifærið,“ sagði Daniel Amartey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×