Innlent

Enn meiri misskipting í heiminum segir í nýrri skýrslu UNICEF

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Í skóla ABC-barnahjálpar í Kenía. 60 milljón barna á grunnskólaaldri í heiminum eru ekki í skóla.
Í skóla ABC-barnahjálpar í Kenía. 60 milljón barna á grunnskólaaldri í heiminum eru ekki í skóla. Mynd/GunniSal
Yfir helmingi færri börn látast fyrir fimm ára aldur og nærri helmingi færri búa í dag við fátækt en 1990. Þá er aðgangur stúlkna og drengja að menntun jafn í 129 löndum. Þetta eru dæmi um góðan árangur sem náðst hefur frá því að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur árið 1989.

Í árlegri skýrslu UNICEF er árangurinn dreginn fram og um leið áskoranir sem eru til staðar. Barnadauði er helmingi minni en fátækustu börnin eru samt tvöfalt líklegri til að deyja fyrir fimm ára afmæli sitt en þau sem standa best efnahagslega.

UNICEF segir að vegna þessa sé mikilvægt að þegar unnið sé að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sé sérstök áhersla lögð á að ná sem fyrst til þeirra sem verst standa.

„Þegar misskipting hefur svona alvarleg áhrif á líf milljóna barna verðum við að bregðast við.Skýrslan sýnir okkur að það hvílir ekki bara siðferðileg skylda á okkur til að grípa til aðgerða, heldur geti þær aðgerðir haft töluverðan efnahagslegan ávinning sem bæti velferð barna og samfélagsins í heild,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×