Innlent

Enn kallar Ástþór eftir manni með „balls“ á Bessastaði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Í nýju myndbandi frá hreyfingu Ástþórs segir að á Bessastaði þurfi að sitja maður með hreðjar.
Í nýju myndbandi frá hreyfingu Ástþórs segir að á Bessastaði þurfi að sitja maður með hreðjar. vísir/skjáskot
Forsetaframbjóðandinn Ástþór Magnúson kallar eftir því að á Bessastaði setjist maður með „balls“ eða hreðjar í nýju myndbandi sem hreyfing hans Virkjum Bessastaði hefur gefið út. Myndbandið er áþekkt því sem gefið var út fyrir forsetakosningarnar 2012.

Undir hljómar lag John Lennon, Power to the People, í íslensk-enskri útgáfu. Er kallað eftir því að valdið færist til fólksins líkt og heiti lagsins gefur til kynna. Þá er sungið að Íslendingar þurfi ekki þæga strengjabrúðu í sömu andrá og birt er mynd af strengjabrúðu af Barack Obama Bandaríkjaforseta.

Því næst er sungið að á Bessastaði þurfi að setjast mann með „balls“ eða hreðjar og birt er mynd af Ástþóri Magnússyni.

Myndbandið er afar sambærilegt við myndband sem gefið var út fyrir forsetakosningarnar 2012. Þá var Þóra Arnórsdóttir, sjónvarpskona og forsetaframbjóðandi í kosningunum í hlutverki strengjabrúðunnar í stað Bandaríkjaforseta.

Finna má hið nýja myndbandið á YouTube síðu hreyfingar Ástþórs og á heimasíðu forsetaframboð hans auk þess sem að því er deilt á Facebook-síðu hreyfingarinnar.

Forsetakosningarnar munu fara fram laugardaginn 25. júní í sumar. Sitjandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur tilkynnt, að hann verði ekki í framboði í kosningunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×