Innlent

Endurbætur breyta ekki skipulaginu

Sveinn Arnarsson skrifar
Í greinargerð með miðbæjarskipulaginu er lagt til að húsið víki fyrir gönguleið. Sú gönguleið sé þungamiðja í skipulagstillögunni.
Í greinargerð með miðbæjarskipulaginu er lagt til að húsið víki fyrir gönguleið. Sú gönguleið sé þungamiðja í skipulagstillögunni. Fréttablaðið/Auðunn
Breytingarnar á Braunshúsi í Hafnarstræti á Akureyri munu ekki hafa áhrif á miðbæjarskipulag Akureyrar. Lagt er til í nýju skipulagi að húsið víki fyrir gönguleið sem talin er þungamiðja skipulagstillögunnar en hefur upp á síðkastið verið endurbætt nokkuð. Þetta er mat Loga Más Einarssonar, bæjarfulltrúa og arkitekts á Akureyri.

„Nei, alls ekki, öll ákvæði standa óbreytt,“ segir Logi þegar hann er spurður hvort endurbætur á húsinu breyti miðbæjarskipulaginu. „Í greinargerð með skipulaginu segir að heimilt sé að flytja af skipulagssvæðinu tveggja hæða timburhúsið Hafnarstræti 106. Það er því ekkert sem kemur í veg fyrir það að húsið verði flutt eftir sem áður á aðra lóð síðar, þrátt fyrir að það fái nú nauðsynlegt viðhald.“

Logi Már hefur verið gagnrýndur fyrir að fyrirtæki hans, Kollgáta ehf., hafi gert teikningarnar að endurbótum á húsinu. Hann telur það á misskilningi byggt.





Logi Már Einarsson
Munur að eiga og mega

„Það er fullkomlega eðlilegt að Kollgáta taki að sér verkefni eins og þetta. Arkitekt á ekki frumkvæði að framkvæmdum. Verkkaupi leitaði til Kollgátu um þessa þjónustu og við tókum verkefnið að okkur og fórum með það eftir lögboðnum farvegi,“ segir Logi.

„Að sjálfsögðu hefði engu breytt hvort við hefðum tekið verkið að okkur eða ekki, varðandi hvort af því yrði. Margrét Kristín Helgadóttir, bæjarfulltrúi og lögmaður, hefur látið hafa eftir sér að húsið þurfi og eigi að víkja samkvæmt skipulaginu. Þetta er rangt. Annars vegar er lagt til að það verði flutt en hins vegar að það sé heimilt að færa það, en ekki rífa. Á þessu er grundvallarmunur og maður skyldi ætla að lögmaður sem er þrautþjálfaður í nákvæmri textavinnu átti sig á þessum merkingarmun.“

Telur húsið festast í sessi

Pétur Bolli Jóhannesson, skipulagsfulltrúi Akureyrarbæjar, tók ákvörðun um að heimila endurbæturnar á húsinu án þess að bera það undir skipulagsnefnd bæjarfélagsins. Taldi Pétur Bolli það samrýmast vinnu sinni og vera innan þeirra heimilda sem lög og reglur setja embætti hans. 

Tryggvi Már Ingason, formaður skipulagsnefndar, telur rétt að skipulagsfulltrúi hafi ekki gerst brotlegur við reglur. Hins vegar telur hann eðlilegt að málið hefði átt að fara fyrir nefndina. Málefni hússins var tekið fyrir á nefndarfundi síðastliðinn miðvikudag.

„Á fundi nefndarinnar ræddum við málið og gerðum athugasemdir við verklagið. Við teljum að þær breytingar sem samþykktar hafa verið á húsinu séu þess eðlis að þær festi húsið í sessi á þeim stað sem það er á í dag. Sú staðsetning er ekki til þess fallin að markmið miðbæjarskipulags Akureyrar nái fram að ganga,“ segir Tryggvi Már. 

„Við í nefndinni erum sammála um að þetta tiltekna mál hefði átt að koma fyrir nefndina. Hún hefði síðan átt að taka efnislega afstöðu til tillögunnar. Þó vil ég árétta að skipulagsstjóri fór ekki út fyrir umboð sitt í þessu máli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×