Innlent

Ellefu skólar leggja niður busavígslur

Snærós Sindradóttir skrifar
Miklar hefðir einkenna busavígslu Menntaskólans í Reykjavík. Eldri nemendur í gervi svokallaðra böðla sjást hér blóðþyrstir við upphaf busavígslu.
Miklar hefðir einkenna busavígslu Menntaskólans í Reykjavík. Eldri nemendur í gervi svokallaðra böðla sjást hér blóðþyrstir við upphaf busavígslu. Fréttablaðið/GVA
Einungis fjórir menntaskólar hyggjast hafa busavígslu með hefðbundnu sniði í byrjun skólaársins.

Menntaskólinn í Reykjavík ætlar að halda í hefðir og tollera nýnema. Formaður Skólameistarafélags Íslands fagnar falli busavígslunnar.

Ellefu framhaldsskólar hyggjast leggja niður hefðbundnar busavígslur í ár. Einungis fjórir skólar á landinu halda í hefðina um hefðbundna busavígslu þó þær hafi mildast mjög.

Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði.
Menntaskólinn í Reykjavík er einn þeirra skóla sem ekki gera viðamiklar breytingar á busavígslu sinni í ár. 

„Kjarninn í athöfninni hingað til hefur verið tolleringin. Hún er áratuga gömul. Við viljum gjarnan halda í hana,“ segir Bjarni Gunnarsson, konrektor MR.

Hann segir að borið hafi á stríðni og leiðindum í tengslum við busavígslu skólans en reynt sé að fylgjast vel með því. „Við viljum gera alla umgjörð jákvæðari og skemmtilegri.“

Á meðal þeirra skóla sem gera miklar breytingar á busavígslunni í ár er Menntaskólinn á Ísafirði. 

Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði, lagði könnun fyrir nemendur sína á vormánuðum árið 2013. 

„Í gær sendi ég svo út tilkynningu til nemenda og skólanefndar þar sem ég benti á umræður og niðurstöður þeirra um að busavígslur skyldu lagðar af og aðdragandi þeirra líka. Það er ekki bara vígslan sjálf heldur líka aðdragandinn sem hefur verið með viðmótsbrag af busavígslu í sinni verstu mynd. Skilaboðin núna eru skýr,“ segir Jón Reynir. 

Hjalti Jón Sveinsson, formaður Skólameistarafélags Íslands.
Hjalti Jón Sveinsson, formaður Skólameistarafélags Íslands og skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, fagnar því að busavígslan sé að leggjast af í framhaldsskólum landsins.

„Það gleður mig óstjórnlega. Þetta hefur verið áhyggjuefni margra kollega minna. Ég held að málið sé að ná samkomulagi við nemendur sem vilja halda í þetta sem þeir kalla gamla siði og venjur.“ 

Hjalti segir að víðast hvar hafi busavígslan gengið út í öfgar. „Það verður ekki lengur við það unað í siðuðu samfélagi.“

Hjalti er gagnrýninn á að Menntaskólinn í Reykjavík hyggist leyfa tolleringar áfram. 

„Tolleringin er ævagamall siður en málið er það að þetta fer úr böndunum. Það getum við ekki sætt okkur við. Við þurfum að geta ábyrgst það að allir séu sáttir og líði vel í kringum þetta,“ segir Hjalti.



Engar busavígslur

Eftirtaldir framhaldsskólar bætast í hóp þeirra skóla sem ekki hafa busavígslu:

  • Borgarholtsskóli
  • Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
  • Fjölbrautaskólinn í Garðabæ
  • Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra
  • Fjölbrautaskóli Snæfellinga
  • Fjölbrautaskóli Suðurnesja
  • Kvennaskólinn í Reykjavík
  • Menntaskólinn að Laugarvatni
  • Menntaskólinn á Egilsstöðum
  • Menntaskólinn á Ísafirði
  • Menntaskólinn við Sund
Busavígsla í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti á níunda áratugnum.Vísir/Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Busavígsla í Kvennaskólanum árið 2009.Vísir/Stefán
Busavígsla í Flensborg árið 2007.Vísir/Anton Brink
Nýnemar horfast í augu við böðul sinn sem stendur fyrir utan Menntaskólann í Reykjavík fyrir busavígslu árið 2011.Vísir/Valli
Busavígsla í Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1976.Vísir/Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Busar boðnir velkomnir í Verzlunarskóla Íslands með kökuboði árið 1977.Vísir/Ljósmyndasafn Reykjavíkur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×