Innlent

Eldur í Brekkubæjarskóla

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brekkubæjarskóli á Akranesi.
Brekkubæjarskóli á Akranesi. Mynd/Heimasíða Brekkubæjarskóla
Eldur kviknaði í grunnskólanum Brekkubæjarskóla á Akranesi í dag. Skólayfirvöld vinna nú að því að ná í foreldra yngstu barna skólans og biðja þau um að sækja börnin. Nemendur í skólanum eru á aldrinum sex til sextán ára.

Samkvæmt upplýsingum Vísis er búið að slökkva eldinn og vinnur slökkviliðið nú að því að reykræsta. Eldsupptök eru óljós.

Kristján Gunnarsson, umsjónarmaður fasteigna á svæðinu, segir í samtali við Vísi að eldurinn hafi komið upp í almennu kennslurými á þriðju hæð í gamla hluta skólans. Eldurinn hafi verið minniháttar en þó hafi gripið um sig nokkur örvænting.

Magnús Vagn Benediktsson skólastjóri var á fundi í Hvalfjarðarsveit þegar Vísir heyrði í honum hljóðið. Hann hafði þá nýheyrt af málinu og var á hraðri leið upp í skóla. Hann staðfesti þó að verið væri að passa börnin og bíða eftir að þau yngstu yrðu sótt.

Ekki liggur ljóst fyrir hvernig skólahaldi verði framhaldið meðal eldri nemenda í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×