Innlent

Eldri nemendur í Ingunnarskóla fá að mæta seinna með góðum árangri

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Í Ingunnarskóla. Guðlaug Erla Gunnarsdóttir skólastjóri segir það verða skoðað með opnum huga að seinka skóladeginum enn meira.
Í Ingunnarskóla. Guðlaug Erla Gunnarsdóttir skólastjóri segir það verða skoðað með opnum huga að seinka skóladeginum enn meira. FRÉTTABLAÐIÐ/PJETUR
Að mæta snemma á morgnana í skólann dregur ekki bara úr námsgetu unglinga heldur er það beinlínis skaðlegt heilsu þeirra. Þetta skrifa fimm vísindamenn í aðsendri grein í Sænska Dagblaðinu. Vísindamennirnir vitna í rannsóknir sem gerðar voru við Háskólann í Minnesota í Bandaríkjunum á 9 þúsundum framhaldsskólanema sem sýna að eftir að skóladagurinn hófst klukkan 8.40 í stað 7.50 hækkuðu einkunnir þeirra samtímis því sem þeir sýndu minni merki um þreytu og þunglyndi. Koffínneysla nemanna minnkaði jafnframt. Í Bandaríkjunum byrjar skóladagurinn nú seinna í mörgum skólum.

Í Ingunnarskóla í Grafarholti var skóladeginum seinkað hjá nemendum í 6. til 10. bekk síðastliðið haust. Í stað þess að mæta kl. 8.10 byrja þau skóladaginn kl. 8.30. Árangurinn hefur verið góður, að sögn Guðlaugar Erlu Gunnarsdóttur skólastjóra. „Krakkarnir eru alsælir með þetta. Þau koma hressari inn í skóladaginn, kennararnir segja að þau séu betur upplögð til vinnu og mæti frekar á réttum tíma. Það er einnig mikil ánægja í foreldrahópnum með þetta.“

Að sögn Guðlaugar voru nemendur í 10. bekk með hærri einkunnir á samræmdum prófum í haust heldur en í fyrra. „Það er kannski ekki hægt að mæla þetta á milli ára eftir svo skamman tíma en það verður fróðlegt að sjá hver reynslan verður í framhaldinu.“

Kennarar fá einnig meiri sveigjanleika, að því er Guðlaug greinir frá. „Það á við þegar þeir þurfa að koma aðeins fyrr til að undirbúa eitthvað en við gerum þetta fyrst og fremst fyrir krakkana.“

Hugmyndin að því að seinka skóladeginum kom frá fulltrúa foreldra í skólaráði síðastliðið vor. „Viðkomandi hafði lesið um rannsóknir á þessu og það tóku allir vel í þetta í skólaráðinu, ekki síst fulltrúar nemenda.“

Guðlaug segir það hafa verið rætt að seinka skóladeginum enn meira. „Það er að vísu flókið að seinka honum meira út af tómstundum krakkanna síðdegis en það kemur allt til greina. Við skoðum þetta með opnum huga.“

Björg Þorleifsdóttir
Björg Þorleifsdóttir, lektor í lífeðlisfræði við læknadeild Háskóla Íslands, segir að þó nokkrar rannsóknir hafi leitt í ljós að unglingum henti betur að byrja seinna en fyrr. „Þetta er alltaf tengt lengri svefni en ekki tímasetningunni sem slíkri. Það er talið að unglingar þurfi 9 klukkustunda svefn og alls ekki minna en 8 klukkustunda svefn. Ef þeir byrja í skólanum kl. 8 þurfa þeir að vakna kl. 7. Til að fá 8 klukkustunda svefn þurfa þeir að vera sofnaðir kl. 23. Það er langt frá því að vera normið í þessu samfélagi.“

Kortlagning á svefnvenjum Íslendinga hófst í janúar síðastliðnum, að sögn Bjargar. „Við leggjum mikla áherslu á að skoða aldurshópinn 10 til 20 ára til að sjá hvernig svefnmynstrið er. Við spyrjum um líðan í skóla og um árangur, koffínneyslu og tölvunotkun meðal annars. Við erum að reyna að skoða þetta í samhengi. Því fleiri sem taka þátt þeim mun betri upplýsingar fáum við.“

Björg tekur það fram að hópurinn sem stendur að rannsókninni sé þeirrar skoðunar að mögulega hafi það áhrif að lífsklukkan sé á skjön við staðarklukkuna ásamt fleiri þáttum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×