Innlent

Ekki sátt um kvótafrumvarp frá sjávarútvegsráðherra

Sveinn Arnarsson skrifar
Afli
Ólík sjónarmið eru á Alþingi um efni nýs frumvarps sjávarútvegsráðherra.
Fréttablaðið/stefán
Afli Ólík sjónarmið eru á Alþingi um efni nýs frumvarps sjávarútvegsráðherra. Fréttablaðið/stefán
Festa á nýtingarrétt útgerðanna á fiskveiðiauðlindinni til rúmlega tuttugu ára í frumvarpi sjávarútvegsráðherra að nýju fiskveiðistjórnunarkerfi. Horfið verður frá því að aflaheimildum verði úthlutað árlega og tekið upp leigusamningakerfi milli útgerða og ríkisins.

Mun ráðherra, samkvæmt frumvarpinu, halda eftir 5,3 prósentum af heildarafla til félagslegrar úthlutunar, líkt og verið hefur. Frumvarp þetta er unnið upp úr hugmyndum sáttanefndar um framtíðarskipan sjávarútvegsins. Frumvarpið á að gera skýra grein fyrir því að ríkið eigi veiðiréttinn og leigi hann út til útgerðanna. Markmið lagabreytingarinnar er að styrkja rekstrargrundvöll sjávarútvegsfyrirtækja þannig að þau geti fjárfest í greininni og skilað ríflegum arði til eiganda auðlindarinnar, þjóðarinnar.

Ásmundur Friðriksson, Sjálfstæðisflokki, segir þau frumvarpsdrög sem nú liggja fyrir þingflokkunum, vera á þá leið að breið sátt ætti að geta myndast um frumvarpið.

„Það er margt mjög gott í frumvarpsdrögunum og ég er mjög ánægður með hvernig þetta lítur út. Þetta er að miklu leyti byggt á störfum sáttanefndarinnar. Auðvitað eigum við eftir að rýna betur í einstaka liði en á heildina litið lítur þetta vel út og ég tel að hægt sé að mynda almenna sátt um málið á Alþingi,“ segir Ásmundur.

Páll Jóhann Pálsson, Framsóknarflokki, tekur í sama streng. „Þetta er ákveðin sáttaleið sem flestir hafa trú á að sé til þess fallin að skapa sátt um kerfið bæði á þingi og í samfélaginu. Menn eru að gera sér vonir um að þetta komi til móts við flest sjónarmið. Í þessu frumvarpi fá útgerðirnar tryggingu fyrir að geta nýtt auðlindina svo hægt sé að skipuleggja reksturinn til einhvers tíma.“

Sú breiða sátt sem Páll Jóhann og Ásmundur telja geta orðið um frumvarpið, verður þó líklega torsótt. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er ekki jafn kátur með frumvarpið. Hann gat ekki tjáð sig um einstakar greinar í frumvarpinu því hann væri bundinn trúnaði þar til það kæmi fyrir þingið.

„Ég get hins vegar sagt að það sem við höfum verið að sjá í fréttum, þessir gríðarlega löngu samningar með lágmarksveiðigjaldi og lítilli nýliðun í greininni, er ekki í takt við áherslur Samfylkingarinnar og ekki það sem landsmenn vilja sjá og hefur margsinnis komið fram í viðhorfskönnunum,“ segir Árni Páll.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, Vinstri grænum, er sama sinnis og Árni Páll að því leyti að líklega verði ekki mikið um sættir um þetta frumvarp.

„Ég gef lítið fyrir það að þetta eigi að heita sáttafrumvarpið mikla. Ég get hins vegar trúað því að svokallaðir hagsmunaaðilar, útgerðin og SFS, verði mjög sátt við frumvarpið. Að mínu mati sýnist mér búið að negla veiðiréttinn til framtíðar í höndum þeirra og engin gulrót í átt að opnu kerfi. Það verður lítil sátt um þetta því hér er verið að binda hendur komandi ríkisstjórna til langrar framtíðar,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×