Íslenski boltinn

Ekki markmiðið að krækja í erlenda leikmenn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Magnús Agnar Magnússon er með marga bestu sparkara landsins á sínum snærum.
Magnús Agnar Magnússon er með marga bestu sparkara landsins á sínum snærum. Fréttablaðið/GVA
„Maður er bara að fara að víkka sjóndeildarhringinn,“ segir Magnús Agnar Magnússonumboðsmaður léttur í samtali við Fréttablaðið, en hann flytur í næstu viku ásamt fjölskyldunni til Haag í Hollandi þar sem hann opnar útibú frá umboðsmannaskrifstofunni Total Football.

„Bjarki Gunnlaugsson er búinn að vera með annan fótinn úti í Hollandi undanfarin misseri en hann og konan hans eru að flytja heim. Það hentar mér og minni fjölskyldu vel að flytja út núna. Konan er að fara í nám þannig að við verðum með skrifstofu úti,“ segir Magnús Agnar, en Total Football er með menn á borð við Aron Jóhannsson og Eið Smára Guðjohnsen á sínum snærum.

Magnús Agnar þarf að ferðast gríðarlega mikið vegna vinnu sinnar, bæði til að heimsækja leikmennina og auðvitað félög sem hafa áhuga á þeim.

„Stærsti kostnaðurinn er alltaf að fljúga frá Íslandi yfir á meginlandið. Það er gott að geta skorið það í burtu, en við verðum einnig áfram með skrifstofuna á Skólavörðustíg. Þetta er gott til að vera nær strákunum, bæði þeim í Hollandi og á Norðurlöndunum,“ segir Magnús Agnar.

Að búa í Hollandi gerir honum einnig frekar kleift að heimsækja fleiri lið og málsmetandi menn til að auka umsvif sín og skrifstofunnar.

„Markmiðið er að styrkja samböndin í Hollandi og víðar. Við fundum alveg fyrir því hvað það var gott fyrir okkur að hafa Bjarka þarna úti. Ég er bara í 50 mínútna fjarlægt frá Alkmaar þar sem Aron er að spila.“

Magnús segir næsta skref ekki vera að krækja í erlenda leikmenn. „Það er ekki markmiðið. Frekar bara auka tengslin við strákana sem við erum með,“ segir Magnús Agnar Magnússon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×