Lífið

Ekki lengur allt í drasli hjá þingmanni Pírata

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Margrét og Heiðar skömmuðu Helga fyrir sóðaskapinn.
Margrét og Heiðar skömmuðu Helga fyrir sóðaskapinn. mynd/skjár einn
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, fékk heimsókn frá sjónvarpsþættinum Allt í drasli árið 2005. Í þáttunum, sem voru á dagskrá Skjás Eins, heimsóttu þau Heiðar Jónsson og Margrét Sigfúsdóttir illa hirt heimili og veittu leiðsögn sína í tiltekt og þrifum. Íbúð Helga var svo sannarlega öll í drasli, en í samtali við Vísi segist hann hafa snúið við blaðinu.

„Móðir mín vann við þessa þætti,“ segir Helgi, en hún bað hann að taka þátt í þættinum og gaf honum þau fyrirmæli að taka alls ekki til vikurnar fyrir þáttinn. „Verandi mömmustrákur þá hlýddi ég bara og hélt meira að segja tvö partý og tók ekki til eftir þau.“

Það var allt á hvolfi heima hjá Helga Hrafni þegar þau Heiðar og Margrét bar að garði.mynd/skjár einn
Helgi segist þó ekki hafa verið neinn snyrtipinni á þessum tíma, en ástandið eins og það birtist í þættinum hafi verið mun verra en það var venjulega. Hann segir að þátttaka sín í þættinum hafi ekki skemmt fyrir sér, en í nokkrar vikur að þættinum liðnum hafi hann tekið eftir því að fólk horfði meira á sig.

Helgi bjó árum saman í íbúðinni en er nýfluttur úr henni og segir að á nýja staðnum sé allt glimrandi fínt. Hann segir að þrátt fyrir góðar ráðleggingar frá Heiðari og Margréti hafi hann lært það að mestu leyti sjálfur að halda hreinu.

„Það mikilvægasta við þrif eru smáatriði. Og þau vefjast oft fyrir ungum karlmönnum.“

Búskapur Helga var dæmigerður karlabúskapur, að mati Heiðars snyrtis.mynd/skjár einn
Dæmigerður karlabúskapur

„Ég fattaði ekki að þetta væri sami maðurinn,“ segir Heiðar Jónsson, betur þekktur sem Heiðar snyrtir, þegar blaðamaður Vísis bað hann að rifja upp heimsóknina til þingmannsins.

„Ég man eftir þessu. Þetta var svona dæmigerður karlabúskapur. Við Margrét vorum pínulítið hissa á að hann væri „síngúl“, hann var svo helvíti huggulegur og afskaplega frambærilegur. Við veltum því fyrir okkur hvað skyldi vera að gaurnum? Þær hefðu átt að vera í biðröðum. Ég held ég sé ekkert hissa á að hann sé þingmaður í dag.“

Helgi segir það mikilvægasta við þrif vera smáatriðin.myns/skjár einn
Heiðar segir að í íbúðinni hafi verið „skemmtileg og karakterísk kaos“ og að þátturinn hafi verið skemmtilegur. Hann fagnar því að Helgi sé orðinn snyrtilegur í dag en segir að það sé allur gangur á því hvernig þátttakendur stóðu sig eftir heimsóknina.

„Sumir urðu algjörir snyrtipinnar en aðrir voru í sama veseni. Fyrst hann er kominn á þing þá hlýtur hann að hafa hafa snúið við blaðinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×