Innlent

Ekki í lagi að prjóna á bifhjóli

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
Lagt hefur verið bann við að hjóla af ásettu ráði á afturhjóli bifhjóls, eða að prjóna, samkvæmt nýjum breytingum á umferðarlögum. Lögin tóku gildi hinn 27. febrúar en hefur Samgöngustofa nú sent frá sér samantekt um helstu breytingarnar.

Tekið er tillit til þess þegar framhjól lyftist óvart lítillega frá jörðu, til dæmis þegar ökumaður tekur skarpt af stað. Í samantektinni segir að slíkt geti gerst, en þó alltaf stutt, og mjög ólíkt því þegar ökumaður tekur skarpt af stað. Slíkt athæfi sé afar hættulegt líkt og mörg alvarleg slys og banaslys vitni um.

Þá hefur einnig verið gerð sú breyting að tuttugu ára og eldri ökumönnum léttra bifhjóla, í báðum flokkum, sé heimilt að hafa farþega á bifhjólinu. Sé farþeginn barn, sjö ára eða yngra, þarf hann að vera í sérstöku sæti því ætluðu en barn eldra en sjö ára þarf að ná með fætur niður að fóthvílum bifhjóls.

Búið er að setja skilyrði um lágmarksaldur ökumanna á bifhjóli og miðast hann nú við þrettán ár. Sú nýjung var tekin upp að heimila akstur á léttum bifjólum í fyrsta flokki á akbrautum, óháð hámarkshraða á vegi og heimilt er eftir sem áður að vera á gangstétt, hjólastígum og gangstígum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×