Lífið

Ekkert stressuð fyrir frumraunina á skjánum

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Katrín og Unnsteinn Manuel ætla að ræða hispurslaust um málefni ungs fólks á skjánum í vetur.
Katrín og Unnsteinn Manuel ætla að ræða hispurslaust um málefni ungs fólks á skjánum í vetur.
„Þetta er meira spennandi en stressandi og ég hlakka bara mikið til þó að vissulega sé þetta alveg nýtt fyrir mér,“ segir Katrín Ásmundsdóttir, annar tveggja stjórnenda nýrra þátta fyrir ungt fólk sem hefja göngu sína á RÚV í haust.

Þátturinn nefnist Hæpið og á að vera ferskur og hispurslaus þáttur þar sem málefni unga fólksins verða krufin út frá skemmtilegu sjónarhorni af þeim Katrínu og Unnsteini Manuel Stefánssyni, sem er betur þekktur sem forsprakki stuðsveitarinnar Retro Stefson. Ritstjóri þáttanna er Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Ragnar Santos hefur yfirumsjón með framleiðslu.

„Við Unnsteinn eru gamlir skólafélagar úr MH. Hann hafði samband við mig og ég ákvað að stökkva á tækifærið,“ segir Katrín sem hefur í nógu að snúast í haust en hún hefur vakið athygli við hljóðnemann á útvarpsstöðinni X-ið 977 þar sem hún er með þáttinn Kynlega kvisti á sunnudagskvöldum. Þetta eru hins vegar hennar fyrstu skref á skjánum.

„Tökur byrja í lok mánaðarins en ég er líka að byrja í lögfræði í háskólanum og stefni á það að vera áfram með útvarpsþættina í vetur.“

Markhópur þáttanna eru þeir sem eru að klára menntaskólann, byrja í háskóla og allt þar í kring. „Okkur hefur þótt vanta efni sem beinist að þessum hópi, þar sem ungt fólk er að tala við ungt fólk.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×